Utanríkisráðuneytið mun ítreka fyrri athugasemdir sínar við óeinkenniskennt flug Rússa umhverfis Íslands í kjölfar þess að rússneskar herflugvélar flugu beint undir íslenskri farþegaþotu á fimmtudag. Vélarnar notuð hluta staðsetningarbúnaðar síns en gáfu ekki upp hæð sína né hraða.
Í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Mbl.is staðfesti það að rússneskar herflugvélar hafi flogið 6.000-9.000 fetum undir íslenskri farþegaþotu á fimmtudag eins og Morgunblaðið sagði frá á forsíðu sinni í dag.
Frétt mbl.is: Sprengjuflugvél flaug undir íslenskri þotu
Upplýsingakerfi NATO tilkynnti íslenskum yfirvöldum um flug þriggja rússneskra herflugvéla af gerðinni Tupolev Blackjack Tu-160 undan strönd Noregs á leið suður í átt til Spánar á fimmtudag, en ekki Tupolev Tu-22M-vélum eins og sagt var frá í frétt blaðsins. Fylgst var með fluginu í gegnum upplýsingakerfi Atlantshafsbandalagsins samkvæmt ferlum og flugstjórnarmiðstöð Isavia haldið upplýstri um ferðir flugvélanna.
„Í þessu tilviki notuðu rússnesku hervélarnar hluta af staðsetningarbúnaði sem gefur til kynna að vélarnar séu á svæðinu en gáfu hvorki upp hæð né hraða vélanna. Í flestum tilvikum hafa rússneskar hervélar slökkt á öllum staðsetningarbúnaði,“ segir í svari utanríkisráðuneytisins.
Utanríkisráðuneytið segist hafa ítrekað tekið upp og gert athugasemdir við rússnesk stjórnvöld um óeinnkenniskennt flug rússneskra herflugvéla umhverfis Ísland á undanliðnum árum vegna hættu sem slík flug geta valdið almennri flugumferð. Þær verði ítrekaðar nú.
Frétt mbl.is: Reyna að vekja upp Rússagrýlu aftur
Nýlega hafi rússnesk stjórnvöld lagt fram tillögur til Atlantshafsbandalagsins um viðræður vegna notkunar á staðsetningarbúnað hervéla og er verið að skoða þær tillögur betur á vettvangi bandalagsins.
Alexey Shadskiy, sendiráðsnautur rússneska sendiráðsins í Reykjavík, sagði við Mbl.is í morgun að flug vélanna hafi verið í samræmi við alþjóðleg lög og engin hætta hafi verið á ferðum. Flugvélarnar hafi ekki farið inn fyrir íslenska lofthelgi. Gaf hann í skyn að fréttir af atvikinu væru átylla til að endurvekja herstöð Bandaríkjamanna í Keflavík.