Leggja til breytingar á LÍN frumvarpi

Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu.
Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu. mbl.is/Hjörtur

Allsherjar- og menntamálanefnd leggur til að námsaðstoð frá LÍN verði fyrirframgreidd og greidd út mánaðarlega sé sótt um það og að vextir verði að hámarki 2,5% að viðbættu 0,5% álagi. Þetta kemur fram í nefndaráliti um LÍN-frumvarpið sem lagt fyrir Alþingi fyrr á árinu.

Í tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu kemur fram að auk fyrrnefndra breytinga eigi að veita aukið svigrúm til doktorsnáms og að heimilt sé að afskrifa afborganir af námslánum þeirra sem verða óvinnufærir vegna slyss eða veikinda. Einnig verður Lánasjóði íslenskra námsmanna skylt að veita nákvæmar upplýsingar um stöðu lána með reglulegum hætti.

Skiptar skoðanir hafa verið um frumvarpið og í síðustu viku gagnrýndi minnihluti nefndarinnar að frumvarpið hafi verið afgreitt úr nefndinni í ósátt. Meðal atriða sem minnihlutinn gagnrýnir eru afnám tekjutengingar og hækkun vaxta. Segja þau breytingarnar koma verst við tekjulága. Þá hefur Kennarasamband Íslands og BHM gagnrýnt frumvarpið.

Formaður Stúdentaráðs HÍ og Viðskiptaráð Íslands hafa aftur á móti talið frumvarpið til bóta, en í því er framfærsluviðmið hækkað og þá fá allir námsmenn námsstyrk. Til viðbótar við styrkinn geta svo námsmenn sótt um námslán.

mbl.is skoðaði frumvarpið í byrjun sumars með tilliti til áhrifa á lántaka, en helstu lykilatriði nýja frumvarpsins má sjá hér.

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra lagði frumvarpið fram fyrr á árinu.
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra lagði frumvarpið fram fyrr á árinu. mbl.is/Árni Sæberg

Í upphaflega frumvarpinu var tilgreint að vextir ættu að vera 2,5% auk álags, en ekki var neitt hámark á því. 

Í tilkynningu ráðuneytisins kemur fram að breytingarnar hafi í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð, einkum vegna samtímagreiðsla sem kallar á tilfærslu á kostnaði á milli ára. Nemur einskiptikostnaður vegna þeirra breytinga um 5 milljörðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert