Rússarnir í alþjóðlegri lofthelgi

Rússnesk Tupolev Tu-22M3-sprengjuflugvél. Vélarnar sem flugu undir íslenskri farþegaþotu voru …
Rússnesk Tupolev Tu-22M3-sprengjuflugvél. Vélarnar sem flugu undir íslenskri farþegaþotu voru af gerðinni Tu-160 AFP

Rússnesku herflugvélarnar sem flugu beint undir íslenskri farþegaþotu á fimmtudag voru allan tímann í alþjóðlegri lofthelgi, að sögn embættismanns Atlantshafsbandalagsins (NATO). Í skriflegu svari við fyrirspurn Mbl.is segir að vélarnar hafi ekki verið í sambandi við borgaralega flugumferðarstjórn né hafi þær lagt fram flugáætlun.

Utanríkisráðuneytið segir að tvær rússneskar herflugvélar af gerðinni Tupolev Blackjack Tu-160 hafi flogið um 6.000 til 9.000 fetum undir íslenskri farþegaþotu í síðustu viku. Hún var á leiðinni frá Keflavík til Stokkhólms. Upplýsingafulltrúi Isavia sagði við Mbl.is í gær að flug rússnesku vélanna hafi ekki verið ólöglegt.

Í svari NATO til Mbl.is kemur fram að loftferðaeftirlit sambandsins hafi komið auga á nokkrar rússneskar herflugvélar í alþjóðlegri lofthelgi norðaustur af ströndum Noregs á fimmtudag. Flugvélarnar hafi flogið meðfram strönd Noregs, haldið áfram vestur af Bretlandseyjum og meðfram Atlantshafsströnd Frakklands inn í Biscay-flóa áður en þær sneru við.

Nokkrar viðbragðsflugvélar NATO, þar á meðal frá Bretlandi, hafi borið kennsl á vélarnar sem Tu-160-sprengjuvélar.

„Tu-160-vélarnar voru í alþjóðlegri lofthelgi allan tímann en þær voru hins vegar ekki í sambandi við borgaralega flugumferðarstjóra né skiluðu þær inn flugáætlun,“ segir embættismaður NATO sem segir jafnframt ekkert benda til þess að sprengjuflugvélarnar hafi rofið lofthelgi NATO-ríkja.

Frétt mbl.is: Flug Rússanna ekki ólöglegt

Frétt mbl.is: Ítrekaðar athugasemdir við flug Rússa

Frétt mbl.is: Reyna að vekja upp Rússagrýlu aftur

Frétt mbl.is: Sprengjuflugvél flaug undir íslenskri þotu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert