Það er mat Vinnueftirlitsins að kraninn sem féll niður við Hafnarstræti í dag hafi verið að lyfta töluvert þyngri byrði en hann á að lyfta í þeirri stöðu sem hann var. Þá leikur grunur á að átt hafi verið við öryggisbúnað kranans þannig að hann sló ekki út eins og hann á að gera. Þetta segir Eyjólfur Sæmundsson, forstjóri Vinnueftirlitsins, en málið er í rannsókn hjá lögreglunni.
Segir hann Vinnueftirlitið hafa rökstuddan grun fyrir þessu og því hafi verið ákveðið að gefa þetta upp. „Fyrir það fyrsta er kraninn svo útbúinn að hann á alls ekki að geta lyft byrðinni jafnþungri og hún var og hann var að lyfta byrðinni þannig að öryggisbúnaðurinn sló ekki krananum út og kom ekki í veg fyrir lyftinguna og það fundust verksummerki sem benda til þess að það hafi verið átt við öryggisbúnaðinn,“ segir Eyjólfur.