Eggert Jónsson, framkvæmdastjóri verktakafyrirtækisins Þarfaþings, segir það mikla mildi að enginn hafi slasast þegar krani, sem fyrirtækið er með á leigu, féll til jarðar í Hafnarstræti skömmu fyrir hádegi í dag.
Sjá frétt mbl.is: „Hrynja ekki að ástæðulausu“
Í samtali við mbl.is segir Eggert að hann hafi verið á staðnum þegar slysið varð. Hann hafi þó enga viðhlítandi skýringu á því af hverju kraninn hafi fallið til jarðar með þessum hætti.
„Ég held það sé best að Vinnueftirlitið sinni því hlutverki að skýra það. En það er greinilega eitthvað sem gefur sig. Maður er allur í hálfgerðu áfalli en á sama tíma er hægt að fagna því að enginn hafi beðið tjón. Það er fyrir mestu. Það er með ólíkindum að enginn hafi slasast.“
Hluti timburbyggingarinnar við hlið framkvæmdanna skemmdist við fall kranans, líkt og sjá má á myndinni hér að ofan.
„Vinnumenn þar voru nýfarnir af stillansinum þegar kraninn hrundi þar ofan á. Lánið elti okkur að öllu leyti hvað mannskap hrærir, það er bara ótrúlegt.“
Aðspurður segir Eggert að kranastjórnandinn sé vanur maður, og að sjálfsögðu með skilyrt réttindi. Þá hafi kraninn verið úttekinn af Vinnueftirlitinu við uppsetninguna.
Framkvæmdirnar tefjast um einhvern tíma vegna þessa, en svæðinu hefur nú verið lokað á meðan Vinnueftirlitið rannsakar aðdrög slyssins.
„Að því loknu geri ég ráð fyrir að við fáum svæðið afhent. Þá taka tryggingarnar til við að hreinsa af því og við setjum upp nýjan krana. Það er ekkert flóknara en það.“