Katla minnir á sig

Skjálftar yfir 4 að stærð eru sýndir með stórum grænum …
Skjálftar yfir 4 að stærð eru sýndir með stórum grænum stjörnum og skjálftar yfir 3 með minni stjörnum. Mynd/Gunnar B. Guðmundsson/Veðurstofa Íslands

Á síðustu klukkustundum hafa nokkrir stórir jarðskjálftar orðið í Kötlu í Mýrdalsjökli. Katla á það til að minna á sig, en nú er tæp öld síðan hún gaus síðast. Á meðfylgjandi mynd sést t.d. hversu skjálftar voru tíðir á svæðinu árið 2011.

Skjálftinn sem varð í nótt kl. 04:41, 3,7 að stærð, fannst í skálanum í Langadal í Þórsmörk og einnig í Básum.

Í hádeginu í dag frá kl. 12:07 til 12:13 urðu fimm skjálftar yfir þremur stigum, þar af tveir sem voru 3,6 að stærð.

Kristín Jónsdóttir fagstjóri jarðvár á Veðurstofunni segir í frétt RÚV að vísindamenn standi á gati yfir jarðskjálftahrinunni í Kötlu. Alveg ómögulegt sé að segja til um núna hvort hún endi með eldgosi, flóðum eða deyi út. „Og við erum bara já, frekar á gati yfir þessari stöðu, sem er komin upp núna. Það er náttúrulega langt síðan að Katla gaus og þetta gæti allt eins endað með gosi,“ hafði RÚV eftir Kristínu.

Myndin hér að ofan er fengin af Facebook-síðu Veðurstofunnar. Hún sýnir upptök jarðskjálfta yfir 0,5 að stærð, undir Kötluöskjunni, frá árinu 2011 til 2016.

Skjálftar yfir 4 að stærð eru sýndir með stórum grænum stjörnum og skjálftar yfir 3 með minni stjörnum. Númerin sýna sigkatla á svæðinu. Meginskjálftavirknin síðustu daga hefur verið norðan og norðvestan við sigketil nr. 16.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert