Mikið fjölmenni kom saman í flugskýli Landhelgisgæslunnar í dag til að taka á móti Benóný Ásgrímssyni þyrluflugstjóra, þegar hann lauk síðasta flugi sínu fyrir Gæsluna. Í samtali við mbl.is segist hann ekki hafa haft hugmynd um að á móti honum yrði tekið með þessum hætti, og sé í raun furðu lostinn.
„Þetta er búið að koma mér algjörlega úr jafnvægi. Í morgun hóf ég bara venjulegan vinnudag, og það eina sem ég hlakkaði til var það að konan mín var búin að bjóða mér út að borða í kvöld, á afmælisdeginum. En þetta var gjörsamlega yfirþyrmandi.“
Stjúpdóttir Benónýs kom sérstaklega frá Bandaríkjunum til að fljúga þetta síðasta flug með honum, en hún er einnig flugmaður.
„Ég hafði ekki hugmynd um það fyrr en klukkutíma fyrir flugið. Allt þetta hefur gjörsamlega komið mér úr jafnvægi, og að mínu mati var ég svona á mörkunum á því að geta talist hæfur til flugs í morgun,“ segir hann og brosir.
Ljóst var að meðal allra viðstaddra ríkti mikill hlýhugur til Benónýs, sem á fimmtíu ára ferli hjá Gæslunni hefur greinilega myndað sterk tengsl við sína fjölmörgu samstarfsfélaga. Georg Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar sagði Benóný þjóðarhetju, og færði honum miklar þakkir fyrir óeigingjarnt starf hans.
Benóný hefur staðið vaktina svo að segja óslitið frá 1978, eða í 38 ár. Enginn hefur starfað lengur við björgunarflug hér á landi og jafnvel í öllum heiminum. Og án efa hefur enginn hér á landi bjargað jafn mörgum mannslífum.
Benóný verður 65 ára á morgun og samkvæmt reglum má hann ekki starfa lengur sem atvinnuflugmaður. Hann á að baki 35 þúsund flugtök og lendingar á þyrlum og flugtímarnir eru orðnir um 11 þúsund.
En ferill hans hjá Gæslunni byrjaði á sjónum, fyrir fimmtíu árum.
„Ég byrjaði á sjónum 14 ára gamall á gamla Ægi, en hann var smíðaður 1929. Þetta var í ágúst 1966 og ég þurfti að fá undanþágu því ekki mátti munstra á skipið yngri menn en 15 ára. Þetta var mjög eftirminnileg ferð,“ sagði Benóný í samtali við Sigtrygg Sigtryggsson í Morgunblaðinu í gær.
„Þröstur Sigtryggsson var þá þegar orðinn skipherra og við vorum í síldarleit úti af Norðausturlandi. Þannig byrjaði ég hjá Gæslunni. Ég var viðvaningur eins og það var kallað og svo skemmtilega vill til að þetta er eini ráðningarsamningurinn sem Gæslan hefur gert við mig.“
Benóný vann sig upp hjá Gæslunni; varð háseti, bátsmaður, stýrimaður og kafari. Hann fór síðan í Stýrimannskólann í Reykjavík, lauk farmannaprófi árið 1972 og útskrifaðist frá varðskipadeild sama skóla árið 1974. Hann var stýrimaður á varðskipunum í báðum þorskastríðunum á áttunda áratug síðustu aldar, aðallega á nýja Ægi hjá Þresti skipherra.
Hvenær tók svo flugið við?
„Það æxlaðist þannig að Pétur Sigurðsson forstjóri kom að máli við okkur þrjá stýrimenn, mig, Boga Agnarsson og Hermann Sigurðsson, og spurði hvort við vildum ekki læra flug. Hann hafði hug á því að kaupa þyrlu til þess að hafa um borð í varðskipunum. Við fórum allir þrír í flugnám. Ég lærði fyrst á venjulega flugvél og síðan á þyrluna.“
„Ég hef oft verið spurður að því hve mörgum mannslífum ég hef bjargað en ég hef alltaf svarað á sama veg: Ég hef ekki hugmynd um það,“ sagði hann í samtali við Morgunblaðið í gær.
„Það skiptir mig ekki neinu máli persónulega hve mörgum ég hef bjargað í gegnum árin. Því hefur verið haldið fram að þetta séu einhver hundruð en ég bara veit það ekki. Það sem er svo gefandi og hvetjandi er allt þakklætið sem maður hefur fengið.
Stundum hefur mér þótt þetta óverðskuldað því þetta er jú bara vinnan manns. En það er ekki hægt að lýsa því með orðum hve mikils virði það er fyrir okkur sem störfum á þessum vettvangi að fá þakkir fyrir störf okkar.“
„Þegar ég lít yfir farinn veg er ég mjög ánægður með feril minn sem þyrluflugmaður og tel að ég hafi verið afskaplega farsæll. Sérstaklega vil ég þakka það góðu fólki sem ég hef unnið með allan minn tíma hjá Gæslunni. Þar hefur verið margt fagfólk sem hefur verið jákvætt og stutt hvert annað. Og svo hefur maður fengið reynsluna hægt og bítandi.“
Benóný ætlar ekki að setjast í helgan stein þótt hann sé að hætta hjá Gæslunni. Hann hefur ráðið sig í hlutastarf hjá flugdeild Samgöngustofu „til að fylgjast með þyrlufólkinu,“ eins og hann orðar það.