„Það er ljóst að eitthvað fór úrskeiðis, slysin verða þannig. Ég treysti mér ekki til að svara því hvað gerðist nákvæmlega. Eitthvað klikkaði, hvort sem það er öryggisbúnaður á krananum eða hvað,“ segir Eggert Jónsson, framkvæmdastjóri verktakafyrirtækisins Þarfaþings, í samtali við mbl.is.
Krani, sem fyrirtækið er með á leigu, féll til jarðar í Hafnarstræti skömmu fyrir hádegi í gær. Mikil mildi þykir að engin hafi slasast. Kranastjórinn er vanur maður með skilyrt réttindi. Þá var kraninn úttekinn af Vinnueftirlitinu við uppsetninguna.
Forstjóri Vinnueftirlitins sagði í samtali við mbl.is í gær að það hefði greinilega verið búið að eiga við öryggisbúnað kranans. „Forstjóri Vinnueftirlitsins er greinilega búinn að finna niðurstöðu og var búinn að því nokkrum klukkustundum eftir að kraninn féll, sem mér finnst svolítið sérstakt. Eigum við ekki að lofa rannsakendum að klára málið? Eitthvað þætti mér skrýtið ef lögreglustjóri tilkynnti sekt sakbornings um leið og hann væri handtekinn,“ bætir Eggert við.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og Vinnueftirlitið er með málið til rannsóknar. Eyjólfur Sæmundsson, forstjóri Vinnueftirlitsins, segir ljóst að þetta eigi ekki að geta gerst. „Búnaður kranans er þannig að þetta á ekki að geta gerst. Sá búnaður er því annað hvort bilaður eða það hefur verið átt við hann og grunur leikur á að það hafi verið gert. Okkar niðurstaða er sú að kraninn var með allt of þunga byrgði og þetta var algjörlega óforsvaranleg framkvæmd.“
Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, segir að verið sé að yfirheyra þá sem bera ábyrgð. Kranastjórarnir séu tveir og ræða þurfi við þá báða en búist er við því að skýrslutöku ljúki í næstu viku. Þá fer málið til ákærusviðs og þar verður metið hvort gefin verði út ákæra.