Mistök Hagstofu kosta neytendur

Hagstofan gerði afdrifarík mistök.
Hagstofan gerði afdrifarík mistök. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er mjög alvarlegt mál og bitnar m.a. á þeim sem nýlega eru búnir að taka lán. Þeir verða rukkaðir um fortíðarverðbólgu,“ segir Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Íslandsbanka, spurður um villu í útreikningum Hagstofu Íslands, en vísitala neysluverðs hækkaði milli mánaða um tæp 0,5%, langt umfram allar opinberar spár. Ein helsta ástæða þessa er leiðrétting Hagstofunnar á eigin mistökum fyrr á árinu, sem urðu til þess að 12 mánaða taktur verðbólgunnar hefur verið umtalsvert vanmetinn undanfarið hálft ár. Ársverðbólga mælist í september 1,8% en í ágúst var verðbólgan 0,9%.

„Verið er að leiðrétta mistök sem gerð voru í mars síðastliðnum og hefur fylgt mælingum til þessa. Þetta er villa sem hefur verið að rekja sig aftur í tímann í spám okkar. Hér er um afdrifarík mistök að ræða, þar sem þau hafa orðið til þess að allar verðtryggðar fjárskuldbindingar hafa í raun verið gerðar upp miðað við ranga vísitölu neysluverðs undanfarið hálft ár.“

Ingólfur bendir jafnframt á að Seðlabankinn hafi byggt vaxtalækkun sína í ágúst á forsendum um m.a. verðbólgu og verðbólguvæntingar sem nú hafa reynst bjagaðar vegna mistaka Hagstofunnar.

Markaðir tóku strax við sér í dag vegna mistakanna og verðbólguálag skaust upp. „Mjög mikil breyting hefur verið í dag á bæði verðtryggðum og óverðtryggðum vöxtum, sérstaklega óverðtryggðum þar sem þeir sýna væntingar um stýrivexti.“

Lítur út fyrir mannleg mistök

Heiðrún Erika Guðmundsdóttir, yfirmaður á vísitölusviði Hagstofu Íslands, segir stofnunina vera tiltölulega nýbúna að uppgötva mistök í útreikningum sínum og verið sé að fara yfir málið.

„Það lítur út fyrir að um mannleg mistök hafi verið að ræða. Það er sjaldgæft að svona mistök gerist og við tökum það alvarlega og vinnum í því að koma í veg fyrir að svona lagað geti gerst aftur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert