Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir að bráðalæknar spítalans telji ekki lengur hægt að una við ástandið enda geti þeir ekki tryggt öryggi sjúklinga sinna við aðstæður sem alltof oft skapast í starfseminni.
„Þannig hefur það ítrekað gerst að alvarlega slasaðir eða veikir einstaklingar hafa þurft að liggja á göngum bráðamóttökunnar jafnvel sólarhringum saman og spítalinn þannig ekki getað veitt þeim þá bestu mögulegu þjónustu sem við öll viljum veita. Ég hef þegar fundað um ástandið með stjórnendum bráðadeildar og mun fylgja ákalli læknanna eftir af fullum þunga,“skrifar Páll á vef Landspítalans í gær.
Hann segir þar að kosningabarátta fyrir alþingiskosningarnar 2016 hafi hafist fyrir alvöru nú í vikunni. Fyrir liggi að kjósendur vilja setja heilbrigðismál í forgrunn umræðunnar og er það vel. Landspítali, þjóðarsjúkrahúsið, er hornsteinn heilbrigðisþjónustunnar og sinnir stærstum hluta sérhæfðrar spítalaþjónustu við landsmenn.
„Það er því ekki óeðlilegt að margir vilji leggja sitt til umræðunnar, hvort sem það eru stjórnmálamenn, félagasamtök eða einstaklingar. Við fögnum auðvitað allri skynsamlegri umræðu um Landspítala. Ég hef í ræðu og ritið margítrekað mikilvægi hinnar „heilögu þrenningar“ sem horfa á til að mínu mati í umræðu um okkar flóknu starfsemi.
Í fyrsta lagi er afar mikilvægt að tryggja viðunandi rekstrarfé til starfseminnar og kæmi til þess að það yrði gert, yrði það trúlega í fyrsta sinn í sögu Landspítala. Sannarlega tímabært. Í öðru lagi verður að byggja upp innviði starfseminnar og skilja hvorki undan eðlilega endurnýjun tækjabúnaðar né viðunandi viðhald bygginga. Síðast en alls ekki síst er öll umræða um heilbrigðismál marklaus sem ekki tekur á stærstu áskorun samtímans í málaflokknum, mönnun heilbrigðisstétta. Ég vil enn og aftur ítreka mikilvægi þess að sá vandi er ekki framtíðarvandi, við glímum við hann á hverjum degi og búast má við að hann aukist, á sama tíma og álag á heilbrigðisþjónustuna eykst með breytingum á aldurssamsetningu þjóðarinnar.