Sigurður Ingi gagnrýnir Sigmund

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra á fundinum í dag.
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra á fundinum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég þakka fyrir þessar 15 mínútur sem forsætisráðherra fær til að fara yfir þessa miklu vinnu undanfarna sex mánuði,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra í yfirlitsræðu sinni á flokksþingi Framsóknarflokksins í dag. Sagði Sigurður þessar mínútur hafa verið skammtaðar einhliða af formanni flokksins og það sé ekki í anda þeirrar samvinnu sem flokkurinn vill byggja á.

Sigurður Ingi hóf ræðu sína á því að leiða hugann að því sem gerðist í apríl en taldi ekki ástæðu til að fara ýtarlega yfir það sem á gekk. „Þegar ég tók að mér það verkefni að reyna að halda saman ríkisstjórninni áttaði ég mig á því að það var ekki sjálfgefið að það tækist,“ sagði Sigurður. Það hafi þó tekist og fyrir það þakkaði hann flokksmönnum fyrir sitt framlag. 

„Hér er ekki allt best í heimi en margt gott,“ sagði Sigurður en segist hann munu gera sitt besta til að gera enn betur í dag en í gær.

Sagði hann enga tryggingu vera fyrir því sá góði árangur sem náðst hefur á kjörtímabilinu haldi áfram, það skipti máli hverjir haldi um stjórnartaumana. Framsóknarflokkurinn hafi gegnt lykilhlutverki og náð árangri á þingi, til að mynda við losun hafta, fyrstu íbúðakaup eða fyrstu skref í átt að verðtryggingarvánni. Þá séu stór mál einnig á dagskrá, til dæmis LÍN og málefni eldri borgara og Framsókn standi vel málefnalega.

„En við þurfum að hafa flokk eða flokka sem vilja vinna með okkur. En hver er staðan nú hvað það varðar?“ spyr Sigurður Ingi.

Skaut hann þá nokkuð að Sigmundi Davíð sem gerði að umræðuefni í sinni ræðu að mótbárur geti veitt flokknum aukinn styrk. „Til eru þeir sem telja það hraustleikamerki að fara út af leið til að sækja sér styrk,“ sagði Sigurður Ingi, „ég er ekki einn af þeim.“

Sagði hann erfitt að byggja upp laskað traust en það sé þó vissulega hægt að sækja það til baka, en þá þýði ekki að beina fingrum á aðra, það sjái allir réttlátir menn.

Loks hvatti Sigurður til málefnalegrar umræðu á flokksþinginu og öflugrar málefnavinnu. Ríkisstjórn hans hefði heldur viljað klára kjörtímabilið en að ganga til kosninga 29. október svo unnt væri að afgreiða mikilvæg mál.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert