Umboðsmaður barna segir að meira fjármagn vanti í barnaverndarkerfið á Íslandi. Fyrr í vikunni var kona dæmd í 18 mánaða fangelsi vegna ofbeldis gagnvart börnunum sínum. Í dómnum kom fram að málefni barnanna hefðu verið í vinnslu með hléum frá árinu 2005. Barnaverndarstofa hefur ákveðið að rannsaka málsmeðferðina.
Frétt mbl.is: Barnaverndarstofa rannsakar mál móður
„Umboðsmaður barna hefur bent á að það vantar meira fjármagn í barnaverndarkerfið. Í kerfinu hér er hver starfsmaður með mun fleiri mál heldur en gengur og gerist í þeim löndum sem við berum okkur saman við,“ segir Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna.
Hún segir embætti sitt ekki hafa haft bein afskipti af umræddu máli en það fylgist með öllum málum er varðar börn og reyni að læra af þeim hvað megi betur fara.
Frétt mbl.is: Móðir beitti fimm börn sín ofbeldi
„Ofbeldi gegn börnum er alvarlegt réttindabrot og okkur finnst það alvarlegt ef það er ekki brugðist hratt og örugglega við,“ segir hún.
„Það þarf að tryggja að svona mál dragist ekki á langinn og að allar ábendingar um ofbeldi gegn börnum séu teknar alvarlega.“
Meginhlutverk umboðsmanns barna er að vinna að bættum hag barna og standa vörð um hagsmuni, þarfir og réttindi þeirra. Með börnum er átt við einstaklinga undir 18 ára aldri.
Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, greindi frá því í samtali við mbl.is í gær að málum varðandi ofbeldi gagnvart börnum hafi fjölgað mikið á undanförnum árum.
Þegar tölfræði Barnaverndastofu er skoðuð kemur fram að tilkynningar um líkamlegt ofbeldi gagnvart börnum fyrstu sex mánuði þessa árs voru 1.098 talsins. Af þeim voru 804 vegna tilfinningalegs/sálræns ofbeldis og 294 vegna líkamlegs ofbeldis.
Á sama tímabili í fyrra voru tilkynningarnar 803 talsins. Þar af voru 588 vegna tilfinningalegs/sálræns ofbeldis og 275 vegna líkamlegs ofbeldis.
Í Barnahúsi sem Barnaverndarstofa starfrækir voru 30 rannsóknarviðtöl tekin vegna líkamlegs ofbeldis fyrstu sex mánuði þessa árs. Á sama tímabili í fyrra voru viðtölin 24 talsins.