Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, hefur skrifað opið bréf til þingmanna pólska þingsins og hvatt þá til að draga til baka lagafrumvarp um nánast algjört bann við fóstureyðingum. Tugir alþingismanna hafa skrifað undir bréfið.
Ríkisstjórn Póllands hefur lagt fram frumvarp til laga þar sem kveðið er á um að konur geti aðeins farið í fóstureyðingu ef líf móður sé í húfi. Eins að þyngja eigi refsingar ef fóstureyðingarlögin eru brotin. Þeir sem framkvæmi fóstureyðingar eiga samkvæmt frumvarpinu yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsi.
Frétt mbl.is: Öryggið tekið frá konum
Í bréfinu eru þingmenn í Póllandi hvattir til þess að standa vörð um sjálfsákvörðunarrétt kvenna, kvenréttindi og jafnrétti til heilbrigðisþjónustu, þar með talið skipulag á fjölskylduhögum. Íslensku þingmennirnir lýsa í bréfinu þungum áhyggjum af lagafrumvarpinu og skora á pólska þingmenn að afturkalla það.
„Við viljum minna pólska þingið á hina sameiginlegu alþjóðlegu ábyrgð og skyldu sem bæði Ísland og Pólland bera til þess að útrýma öllu misrétti gagnvart konum,“ segir meðal annars í bréfinu. Þá segir þar jafnframt að öruggar fóstureyðingar séu nauðsynlegur þáttur í rétti kvenna til andlegs og líkamlegs sjálfstæðis.
Þrjátíu þingmenn hafa þegar skrifað undir bréfið og koma þeir úr öllum flokkum á Alþingi. Í tilkynningu frá Pírötum segir að fleiri undirskriftir eigi mögulega eftir að bætast við.
Konur í Póllandi lögðu í dag niður störf til að mótmæla frumvarpinu en í frétt BBC um málið sagði að kvennafrídagurinn á Íslandi árið 1975 væri þeim pólsku hvatning. Svartklæddir mótmælendur gengu um götur og kröfðust réttinda yfir líkama sínum. Íslendingar sýndu Pólverjum samstöðu með mótmælum á Austurvelli í dag.
Fóstureyðingar eru nú þegar nánast bannaðar í Póllandi en undantekningarnar eru fáar. Aðeins er heimilt að framkvæma fóstureyðingu ef konur verða þungaðar eftir nauðgun eða sifjaspell, sem þarf að vera skjalfest hjá saksóknara. Eins ef heilsa móður er í hættu eða ef fóstrið er mjög afmyndað.
Þeir þingmenn sem undirrituðu bréfið voru:
Ásta Guðrún Helgadóttir, (P)
Svandís Svavarsdóttir, (V)
Oddný Harðardóttir, (S)
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, (S)
Guðmundur Steingrímsson, (Æ)
Björt Ólafsdóttir, (Æ)
Brynhildur Pétursdóttir, (Æ)
Ögmundur Jónasson, (V)
Jóhanna María Sigmundsdóttir, (B)
Össur Skarphéðinsson, (S)
Helgi Hrafn Gunnarsson, (P)
Katrín Jakobsdóttir, (V)
Óttarr Proppé, (Æ)
Birgitta Jónsdóttir, (P)
Katrín Júlíusdóttir, (S)
Ólína Kjerúlf Þórðardóttir, (S)
Árni Páll Árnason, (S)
Elsa Lára Arnardóttir, (B)
Líneik Anna Sævarsdóttir, (B)
Karl Garðarsson, (B)
Páll Valur Björnsson, (Æ)
Steinunn Þóra Árnadóttir, (V)
Helgi Hjörvar, (S)
Róbert Marshall, (Æ)
Birgir Ármannsson, (D)
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, (V)
Steingrímur J. Sigfússon, (V)
Silja Dögg Gunnarsdóttir, (B)
Kristján L. Möller, (S)
Unnur Brá Konráðsdóttir, (D)