Hæstiréttur Íslands hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Suðurlands um að maðurinn sem er grunaður um alvarlega líkamsárás og kynferðisbrot í Vestmannaeyjum í síðasta mánuði skuli ekki sæta gæsluvarðhaldi.
Málið var kært til Hæstaréttar 28. september síðastliðinn eftir að Héraðsdómur Suðurlands hafði hafnað kröfu lögreglustjórans í Vestmannaeyjum um að maðurinn skyldi sæta gæsluvarðhaldi til 26. október næstkomandi.
Frétt mbl.is: Laus úr haldi í Eyjum
Maðurinn var handtekinn laugardaginn 17. september, grunaður um að hafa brotið gegn konu á fimmtugsaldri um nóttina. Hún var flutt með sjúkraflugi til Reykjavíkur um morguninn eftir að hafa fundist nakin með mikla áverka í andliti við hlið fata sinna og leikur grunur á að brotið hafi verið gegn henni kynferðislega.
Líkamshiti konunnar mældist 35,3 gráður er hún fannst og sagði í áverkavottorði að hún hafi verið „afmynduð í framan“.