Kvaddi Kristofferson með tárum

Fjölskyldan í Hörpu Hópurinn fyrir tónleikana með Kris Kristofferson. Frá …
Fjölskyldan í Hörpu Hópurinn fyrir tónleikana með Kris Kristofferson. Frá vinstri: Árdís Björg Ísleifsdóttir, Harpa Hansen, Árni Reykdal, Guðný Hansen, Bjartur Ari Hansson, Grímur Reykdal, Helena Mjöll Jóhannsdóttir, Hans Unnþór Ólafsson, Guðmundur Ólafur Ingólfsson, Inga Hrefna Sveinbjarnardóttir, Óttarr Magni Jóhannsson, Jóhannes Bragi Gíslason, Jóna Jóhannsdóttir, Ásta Sif Jóhannsdóttir og Sveinn Gunnarsson. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Bandaríski listamaðurinn Kris Kristofferson, einn þekktasti núlifandi kántrítónlistarmaður heims, var með tónleika í Eldborg í Hörpu í liðinni viku og skemmtu gestir sér konunglega.

Þar á meðal Inga Hrefna Sveinbjarnardóttir, sem gerði sér ferð frá Seyðisfirði til þess að sjá uppáhaldssöngvarann og leikarann á sviði í síðasta sinn.

„Tónleikarnir gátu ekki verið betri enda var stemningin frábær,“ segir Inga Hrefna, sem er um fjórum árum eldri en áttrætt goðið, verður 85 ára í janúar. Hún var líka á tónleikum kappans í Laugardalshöll fyrir 12 árum og hefur hlustað á tónlist hans frá því hann byrjaði að senda frá sér lög. „Hann hefur ekkert breyst, þó að röddin sé ekki eins sterk og áður, er frábær leikari og ég hef gaman af þessari tónlist,“ segir Inga Hrefna, sem tók undir í hverju lagi. „Hann er yndislegur og ljúfur, röddin ætíð sjarmerandi og ég er alltaf jafn hrifin af honum. Það er bara einn Kris Kristofferson.“

Tónlist hefur verið ríkur þáttur í lífi Ingu Hrefnu, sem hefur aldrei sleppt lögheimili á Seyðisfirði en nokkrum sinnum búið í Reykjavík vegna vinnu. „Maður lá ekki uppi á bótum og varð að gjöra svo vel að færa sig nær vinnunni, þess vegna að fara á vertíð á veturna.“ Útvarpið og plötuspilarinn hafi samt aldrei verið fjarri, auk þess sem hún hafi unnið á böllum í mörg ár. „Ég hef alltaf hlustað mikið á tónlist, er alhliða áhugamanneskja um tónlist,“ segir hún. „Þegar ég fór fyrst á ball var bara grammófónn og síðar var spilað á harmoniku og trommu. Hljómsveitirnar komu seinna, Faxar og fleiri.“

Álftagerðisbræður, Raggi Bjarna og Liszt

Þó að Inga Hrefna sé alltaf á spani og taki virkan þátt í starfi eldra fólks á Seyðisfirði leikur tónlistin eitt stærsta hlutverkið í lífinu. Hún fer á flesta tónleika sem eru í „bláu“ kirkjunni á Seyðisfirði og hefur nokkrum sinnum komið suður til þess að fara á tónleika, meðal annars með stórtenórnum Jose Carreras og Diddú í Laugardalshöll. Hún hefur mætt á tvenna jólatónleika Björgvins Halldórssonar á sama stað, tónleika með systkinunum Ellen og KK og tónleika með karlakórnum Þröstum. Álftagerðisbræður eru í miklu uppáhaldi og lagið „Þannig týnist tíminn“ með Ragga Bjarna og Lay Low er oft spilað. „Álftagerðisbræður eru svo léttir og kátir, miklir grallarar, og Raggi hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér,“ segir hún og bætir við að uppáhaldstónskáldin séu Franz Liszt, Richard Wagner og Frédéric Chopin.

Kris Kristofferson syngur ekki oftar í eigin persónu á Íslandi og Inga Hrefna hefur ekki áhuga á því að fara á tónleika með honum í Bandaríkjunum áður en hann hættir endanlega. „Ég skoða bara kirkjur í útlöndum,“ segir hún. „Það er slæmt að hann sé að hætta en gott að því leyti að það er best að hætta þegar hæst ber. En komi hann aftur hika ég ekki við að mæta.“

Hjónin Inga Hrefna og Jóhann Jóhannsson eignuðust sjö börn og eru sex þeirra á lífi. Fjölskyldan og vinir fjölmenntu á tónleikana og sáu ekki eftir því. „Ég hefði verið í rusli ef ég hefði ekki látið þetta eftir mér. Ferðin var vissulega þess virði, þótt ég hafi kvatt goðið með tárum. Óttarr sonur minn stóð fyrir þessu og ég kom til þess að passa upp á þau. En þetta er bara ég. Ég er bara ég sjálf.“

Kris Kristofferson í Hörpu.
Kris Kristofferson í Hörpu. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert