Mikið gjörningaveður gekk yfir Reykjanesið á áttunda tímanum í morgun með eldingum og hagléli. Eldingar hafa sést víða á Suðvesturlandinu. í Reykjanes kólnaði úr tíu gráðum í sex stig á örstundu og um tíma var jörð hvít.
Á Facebook-síðunni Fróðleiksmolar um flug er birt mynd sem Halldór Guðmundsson náði af þotu WOW air, TF-Gay þar sem hún flýgur í gegnum eldingarnar í morgunsárið.
Samkvæmt upplýsingum frá WOW hafði þetta engin áhrif á flugvélina enda þotur búnar sérstökum eldingavörum. Engar upplýsingar hafa heldur borist um að farþegar hafi fundið fyrir óþægindum enda ekki óalgengt að þotur fljúgi í gegnum slík veðrabrigði.
Helga Ívarsdóttir, vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að eldingarnar vera til komnar vegna skúraklakka sem eru yfir á suðvestanverðu landinu. Eldingar hafa mælst á Reykjanesi, Breiðafirði, Faxaflóa og á hálendinu milli Hofsjökuls og Mýrdalsjökuls.
Hún segir að eldingasvæðið sé á leiðinni norður yfir þannig að næstu klukkustundir má eiga von á frekari eldingum á vestanverðu landinu.
Að sögn Helgu getur haglél fylgt með svo öflugum skúraklökkum þar sem það er svo kalt í háloftunum þá nær úrkoman ekki að hitna þó svo yfirborðið sé heitt. Það skýri haglélið sem settist á jörðu í Reykjanesbæ í morgun.
Samkvæmt mælum Veðurstofunnar var 10 stiga hiti í Reykjanesbæ snemma í morgun en þegar haglið féll hafði hitastigið lækkað um fjórar gráður og var sex stiga hita í bænum skömmu fyrir 8 í morgun. Þar er nú 10 stiga hiti.
Skúraklakkar samkvæmt Vísindavefnum er þegar uppstreymi er óhindrað upp í nokkur þúsund metra hæð. Loftið kólnar í uppstreyminu og raki þess þéttist og myndar ský og jafnvel skúrir nái hitinn í skýinu niður fyrir frostmark. Þá dregur fyrir sól.