Skoraðist ekki undan vitnisburði um föður sinn

Geirmundur Kristinsson, fyrrum sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Keflavíkur, er ákærður fyrir umboðssvik.
Geirmundur Kristinsson, fyrrum sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Keflavíkur, er ákærður fyrir umboðssvik. mbl.is/Sverrir

Sverrir Geirmundsson, sonur Geirmundar Kristinssonar sem ákærður er meðal annars fyrir umboðssvik í starfi sínu sem sparisjóðsstjóri Sparisjóðsins í Keflavík, sagðist aðspurður ekki myndu skorast undan því að bera vitni fyrir dómi í máli föður síns.

Dómari tjáði honum við upphaf skýrslutöku yfir honum í dag að hann hefði rétt á því að neita að bera vitni samkvæmt lögum, þar sem hann væri tengdur hinum ákærða svo nánum böndum. Þann rétt sagðist hann ekki ætla að nýta sér.

Kynnt sem tímabundin stjórnarseta

Sverrir sagðist ekki muna hver hefði óskað eftir því að hann settist í stjórn félagsins Fossvogshyls. Þá sagði hann ekki hafa verið rætt hver rekstur félagsins yrði, heldur hafi þetta verið kynnt fyrir honum sem tímabundin stjórnarseta í dótturfélagi sparisjóðsins.

Nánari umfjöllun mbl.is: Baðst undan spurningum fyrir dómi

„Ég var nýhættur sem útibússtjóri á þessum tíma og var ekki mikið að leiða hugann að þessu. Ég treysti náttúrulega þessu fólki, sem var með próf í endurskoðun,“ sagði Sverrir fyrir dómi. Spurður hvort rétt sé að undirskrift hans sé á framsalssamningi félagsins til sín, sagði hann það ekki geta staðist.

„Ef þetta er mín undirskrift þá var hennar aflað á röngum forsendum.“

Sverrir sagðist hafa leikið hljóðupptöku fyrir lögreglu, þar sem símtal föður hans og Páls Steingrímssonar endurskoðanda væri að finna. 

„Þar fullyrðir Páll fullum fetum að ég hafi aldrei átt þetta félag,“ sagði Sverrir.

Spari­sjóður­inn í Kefla­vík opnaði úti­bú í Borg­ar­túni í Reykja­vík árið …
Spari­sjóður­inn í Kefla­vík opnaði úti­bú í Borg­ar­túni í Reykja­vík árið 2008, nokkr­um mánuðum fyr­ir hrun banka­kerf­is­ins... mbl.is/Friðrik Tryggvason

Upphafsstafi skorti á skjölin

Beðinn um að staðfesta undirskriftir sínar á samþykktum félagsins gat Sverrir það heldur ekki, og sagði meðal annars að upphafsstafi hans skorti á skjölin.

Benti hann þá á að hann hefði aldrei komið að rekstri félagsins. Spurður hvort hann hefði haft vitneskju um kaup félagsins á stofnfjárbréfum í sparisjóðnum sagðist hann ekki hafa vitað af því, og að í raun efaðist hann um þau hefðu nokkurn tíma átt sér stað.

„Ef ég á að hafa skrifað undir öll þessi gögn, þá stenst ekki að Páll hafi fullyrt það að ég hafi aldrei átt hlut í félaginu. En það gerði hann.“

Þá hefði hann ekki vitað af meintum framsalssamningi fyrr en 1. febrúar árið 2011, þegar fréttir voru fyrst fluttar af honum. 

Framselt sama dag til sonar Geirmundar

Eins og mbl.is hefur áður greint frá, varðar málið meðal annars umboðssvik þar sem Geir­mund­ur er tal­inn hafa mis­notað aðstöðu sína, sem stjórn­ar­formaður dótt­ur­fé­lags spari­sjóðsins, einka­hluta­fé­lags­ins Víkna, og valdið fé­lag­inu veru­legri fjár­tjóns­hættu, þegar hann fram­seldi stofn­bréf í Spari­sjóði Kefla­vík­ur að verðmæti tæp­lega 700 millj­ón króna, frá Vík­um til einka­hluta­fé­lags­ins Foss­vogs­hyls í lok árs 2007, án þess að nokkuð end­ur­gjald kæmi fyr­ir.

Eng­inn lána­samn­ing­ur var gerður og ekki var gengið frá neinni trygg­ingu. Sama dag og stofn­fjár­bréf­in voru skráð á Foss­vogs­hyl var fé­lagið fram­selt frá Deloitte til son­ar Geir­mund­ar, Sverr­is Geir­munds­son­ar.

Aðalmeðferð fer fram þessa vikuna í Héraðsdómi Reykjaness.
Aðalmeðferð fer fram þessa vikuna í Héraðsdómi Reykjaness. mbl.is/ÞÖK

Vinnuregla að athuga eignastöðu félaga

Guðmundur Skúli Hartvigsson, lögfræðingur á skatta- og lögfræðsviði Deloitte á árunum 2007 og 2008, var einn þeirra sem kallaður var til vitnisburðar í dag.

Aðspurður sagðist hann þekkja til félagsins Fossvogshyls, þar sem það hefði verið framselt frá Deloitte á sínum tíma.

Þá sagðist hann kannast við undirskrift sína á framsalssamningi Fossvogshyls til Sverris, sonar Geirmunds, en að hann vissi ekki hvort hann hefði verið viðstaddur undirskrift Sverris á samninginn. Þeir hefðu ekki átt í neinum samskiptum fyrir utan sjálfa samningsgerðina.

Ákæruvaldið spurði hvort vinnuregla væri hjá Deloitte að ganga úr skugga um að félög, sem fyrirhugað væri að framselja, væru laus við eignir. Sagði hann svo vera, og að svo hlyti að hafa verið í umræddu tilfelli.

Venja að hafa tilbúin félög með kennitölu

Verjandi Geirmundar spurði þá hvort hann myndi eftir því að að hann og Sverrir hefðu undirritað samninginn saman. „Oft eru aðilar með, þar sem báðir undirrita, en svo er þetta líka sent og þannig skrifað undir, þannig ég get ekki svarað fyrir það.“

Hann sagði það líklegt að Deloitte hefði stofnað Fossvogshyl, sem hann sagði svokallað skúffufélag. Sér væri þó ekki kunnugt um af hverju félagið hefði verið stofnað.

„Mér finnst líklegt í þessu tilviki að Deloitte hafi stofnað nokkur félög, með þessari sömu endingu, -hylur, en það er venja að hafa félög tilbúin með kennitölu fyrir þá viðskiptavini sem þess þarfnast.“

Vala Valtýsdóttir lögmaður, sem starfaði líkt og Guðmundur Skúli á skatta- og lögfræðisviði Deloitte á umræddum tíma, tók í sama streng og hann og sagði það „algjöra“ vinnureglu að ganga úr skugga um að félög væru án eigna við framsal úr fyrirtækinu.

Aðspurð gat hún ekki sagt til um hver hefði greitt fyrir félagið, en að það væri hægt að athuga í bókhaldi Deloitte.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert