Á geðdeild gegn vilja sínum

Geðdeild Landspítala háskólasjúkrahúss.
Geðdeild Landspítala háskólasjúkrahúss. mbl.is/ Kristinn Ingvarsson

Hæstiréttur Íslands hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli sem karlmaður höfðaði eftir að hafa verið vistaður á geðdeild gegn hans vilja.

Maðurinn kærði úrskurð héraðsdóms sem var kveðinn upp  22. september síðastliðinn þar sem ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um nauðungarvistun mannsins á sjúkrahúsi var staðfest.

Í dómi Hæstaréttar Íslands kemur fram að maðurinn hafi verið handtekinn 15. september síðastliðinn eftir að hann hafði, að eigin sögn, brotið rúðu í reiðikasti og tekið upp hníf þegar lögreglumenn hugðust taka hann höndum.

Lögreglan færði manninn á geðdeild þar sem hann var vistaður fram á næsta dag. Þegar hann óskaði eftir því að útskrifast var ákveðið að vista hann þar gegn vilja sínum.

Í dómnum segir að rétt hafi verið af lögreglu að handtaka manninn og færa hann á geðdeild án þess að kallaður væri til læknir. Ekki hafi gefist ráðrúm til slíks og ekki hafi verið tök á að koma honum rakleitt undir læknishendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert