Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, gerir ekki ráð fyrir að niðurstaða náist í kvöld í neinum þeirra mála sem voru rædd á Alþingi í dag. Hann segir að þingið sé í óvissu.
Einar sleit þingfundi klukkan 18 en þá hafði fundi ítrekað verið frestað. Í ljósi stöðunnar segist hann hafa ákveðið að boða til þingfundar klukkan 10.30 í fyrramálið. Engir fundir eru fyrirhugaðir fyrir þann tíma.
Alls eru 16 mál á lista ríkisstjórnarinnar, samkvæmt því sem Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra greindi frá á Alþingi.
Á meðal þeirra mála sem voru á dagskrá ríkisstjórnarinnar í dag voru staða lífeyrismála opinberra starfsmanna, tilnefning Vatnajökulsþjóðgarðs í heimsminjaskrá UNESCO, fagháskólanám á Íslandi og skammtímaáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru- og menningarsögulegum minjum á ferðamannastöðum.