Þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis

Þau Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkurborgar, Eygló Harðardóttir, félags- og …
Þau Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkurborgar, Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, Ólöf Nordal innanríkisráðherra, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, ásamt fulltrúum Stígamóta, Drekaslóðar, samtaka um Kvennaathvarf, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Kvennaráðgjafarinnar undirrituðu viljayfirlýsinguna og hefur þjónustumiðstöðin fengið nafnið Bjarkahlíð. Mynd/Velferðarráðuneytið

Viljayfirlýsing samstarfsaðila um þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis var undirrituð í dag og mun þjónustumiðstöðin taka til starfa í Reykjavík í byrjun næsta árs. Viljayfirlýsingin var undirrituð í nýuppgerðu húsnæði miðstöðvarinnar í Bjarkahlíð í Bústaðahverfi. Greint er frá þessu í tilkynningu á vef velferðarráðuneytisins.

Reykjavíkurborg mun leggja til húsnæðið og greiða rekstrarkostnað þess en velferðarráðuneytið veitir fé til reksturs starfseminnar.

Þau Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkurborgar, Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, Ólöf Nordal innanríkisráðherra, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, ásamt fulltrúum Stígamóta, Drekaslóðar, samtaka um Kvennaathvarf, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Kvennaráðgjafarinnar undirrituðu viljayfirlýsinguna og hefur þjónustumiðstöðin fengið nafnið Bjarkahlíð.

Miðast við Reykjavík til að byrja með

Starfsemin mun felast í samhæfðri þjónustu og ráðgjöf fyrir fullorðna einstaklinga sem beittir hafa verið ofbeldi, svo sem kynferðisofbeldi, ofbeldi í nánum samböndum eða eru brotaþolar í mansalsmálum eða vændi. Mun brotaþolum gefast kostur á stuðningi og ráðgjöf þeim að kostnaðarlausu en verkefnið er að hluta til byggt á erlendri fyrirmynd þar sem markmiðið er að brotaþolar fái á einum stað alla þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda í kjölfar ofbeldis.

Mun þjónustan miðast við Reykjavík til að byrja með en þá er gert ráð fyrir aðkomu annarra sveitarfélaga að verkefninu í framhaldinu. Fagna samstarfsaðilar því að verkefnið væri að verða að veruleika og telja tilkomu Bjarkahlíðar marka tímamót í þjónustu við brotaþola ofbeldis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert