Engin vitni gefið sig fram

Engin vitni hafa gefið sig fram vegna misþyrmingar á lambi við smölum sauðfjár í Öxnadal í Eyjafirði helgina 17.-18. september. Matvælastofnun óskaði eftir vitnum í gær en málið er í skoðun hjá stofnuninni.

Frétt mbl.is: Leita vitna að dýraníð

Líkt og fram kom í tilkynningu MAST er talið að fjöldi hafi verið viðstaddur þegar atvikið átti sér stað.

mbl.is sagði frá málinu í gær og hafði eftir heimildarmönnum að þegar lamb reyndist of örmagna til að komast yfir hringveginn skammt frá Þelamörk, tók einn þeirra sem annaðist smölunina lambið upp, kastaði því frá sér og gekk síðan í skrokk á því; sparkaði í það og stappaði á hálsi þess.

Frétt mbl.is: Grunur um dýraníð í Hörgársveit

mbl.is ræddi við marga vegna málsins og svo virðist sem flestir í sveitinni kannist við það en enginn vildi þó tjá sig undir nafni.

Málið var tilkynnt til héraðsdýralæknisins á Akureyri en var ekki komið inn á borð lögreglu í gær. Landssamtök sauðfjárbænda segja meðferðina á lambinu til háborinnar skammar og hafa hvatt vitni til að gefa sig fram.

Frétt mbl.is: Fordæma allt dýraníð

„Vitni eru beðin um að senda Matvælastofnun lýsingu á atvikinu í gegnum tilkynningakerfi Matvælastofnunar á forsíðu mast.is undir Senda ábendingu, með tölvupósti á netfangið mast@mast.is eða að hafa samband við stofnunina í síma 530-4800,“ segir í tilkynningu Matvælastofnunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert