Hæstiréttur sakfelldi í dag níu fyrrverandi starfsmenn Kaupþings í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings. Var tveimur starfsmönnum sem áður höfðu verið sýknaðir eða ákæruliðum á hendur þeim vísað frá dæmd sök í málinu en ekki gerð refsing.
Þeir sem ákærðir voru í málinu voru Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri bankans, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, Ingólfur Helgason, fyrrverandi forstjóri Kaupþings á Íslandi, Einar Pálmi Sigmundsson, fyrrverandi forstöðumaður eigin viðskipta Kaupþings, Birnir Sær Björnsson og Pétur Kristinn Guðmarsson, starfsmenn eigin viðskipta, Bjarki Diego, fyrrverandi framkvæmdastjóri útlána Kaupþings, og Björk Þórarinsdóttir, fyrrverandi lánafulltrúi í lánanefnd bankans.
Hreiðar var í Hæstarétti dæmdur í 6 mánaða fangelsi, en í héraðsdómi hafði hann ekki hlotið refsiauka við fyrri mál sem hann hafði verið dæmdur í. Magnúsi og Björk var ekki gerð refsing í málinu, en með niðurstöðu sinni telur Hæstiréttur þau þó sek í málinu.
Í tilfellum Sigurðar, Einars Pálma, Birnis, Péturs og Bjarka var dómur héraðsdóms óraskaður.