Árvakur færir út kvíarnar

Haraldur Johannessen, ritstjóri Árvakurs, og Jón Axel Ólafsson, eigandi Eddu …
Haraldur Johannessen, ritstjóri Árvakurs, og Jón Axel Ólafsson, eigandi Eddu útgáfu. mbl.is/Golli

Árvakur hf., útgefandi Morgunblaðsins og mbl.is, hefur fest kaup á öllum útvarpsrekstri Símans. Þetta var tilkynnt á fjölmennum fundi með starfsfólki fyrirtækisins nú síðdegis. Með kaupunum tekur Árvakur yfir rekstur útvarpsstöðvanna K100 og Retro. Fyrst um sinn verður útsendingum haldið úti frá núverandi stúdíói í Ármúlanum.

Þá hefur Árvakur einnig fest kaup á öllu hlutafé Eddu – útgáfu ehf. Fyrirtækið gefur meðal annars út hin klassísku Andrésblöð og myndasögubækur Syrpu og heldur úti áskriftarklúbbunum Disney kríli og Disneyklúbbnum. Starfsemi Eddu – útgáfu mun flytjast í húsnæðið sem hýsir ritstjórnarskrifstofur Morgunblaðsins. Seljendur fyrirtækisins eru bræðurnir Jón Axel Ólafsson og Jóhann Garðar Ólafsson ásamt Bjarna Ármannssyni.

Kaupin á fyrirtækjunum eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins og munu ekki koma til framkvæmda fyrr en að því fengnu. Kaupverð er trúnaðarmál.

„Með kaupum á Eddu – útgáfu ehf. og útvarpsstöðvunum K100 og Retro er Árvakur að stíga mikilvægt skref í þá átt að bæta þjónustuna og treysta undirstöður rekstrarins til framtíðar,“ segir Haraldur Johannessen, framkvæmdastjóri Árvakurs og ritstjóri Morgunblaðsins.

„Við teljum mikil tækifæri í því að tengjast þeim góðu vörum og vörumerkjum sem Edda – útgáfa hefur boðið upp á, Andrésblöðunum og öðru af því tagi sem tengist Disney. Þá höfum við séð á þróun fjölmiðla á liðnum árum, bæði hér heima og erlendis, að útvarp hefur haldið sínu þrátt fyrir hraðar og miklar tæknibreytingar. Þar eru því tvímælalaust tækifæri og alveg sérstaklega fyrir fjölmiðil sem rekur stærstu og öflugustu fréttastofu landsins og getur nú boðið upp á fréttir á öðru formi en áður. Við teljum líka að það séu margvísleg önnur jákvæð samlegðaráhrif á milli miðlanna og munum nýta þau til að ná til enn fleiri notenda og örva vöxt í hverjum miðli fyrir sig og öllum saman.

„Með kaupum á Eddu – útgáfu ehf. og útvarpsstöðvunum K100 …
„Með kaupum á Eddu – útgáfu ehf. og útvarpsstöðvunum K100 og Retro er Árvakur að stíga mikilvægt skref í þá átt að bæta þjónustuna og treysta undirstöður rekstrarins til framtíðar,“ segir Haraldur. mbl.is/Golli

Við þessi kaup bætist svo að Árvakur er að stofna tvo nýja vefi á mbl.is. Sjávarútvegsvefurinn 200 mílur var kynntur í síðustu viku og innan skamms tíma verður settur í loftið nýr og öflugur matarvefur. Með þessu erum við að nýta þennan sterka miðil, mbl.is, enn frekar til að bæta þjónustuna og styrkja reksturinn.“

Erfitt rekstrarár að baki en horfurnar betri

Á starfsmannafundinum kynnti Haraldur einnig afkomu Árvakurs í fyrra en þá varð tæplega 164 milljóna króna tap af rekstrinum.

„Eins og tölurnar bera með sér var reksturinn mjög þungur í fyrra. Árið byrjaði ágætlega, en þegar leið fram á vorið hófust kjaradeilur sem höfðu mikil áhrif á andrúmsloftið á auglýsingamarkaði. Auglýsendur kipptu að sér höndum eins og yfirleitt gerist við slíkt óvissuástand og tekjurnar duttu niður. Við þetta bættist svo að samið var um miklar hækkanir í kjarasamningum og voru þær töluvert umfram áætlanir okkar. Gróflega má segja að hvor þessara þátta skýri um helming tapsins,“ segir Haraldur.

Hann segir þó að reksturinn það sem af er þessu ári sé mun betri og útlit sé fyrir mikinn rekstrarbata á milli ára. „Engu að síður eru líkur á einhverjum hallarekstri í ár. Áætlanir okkar höfðu gert ráð fyrir að reksturinn yrði í jafnvægi á þessu ári en líklegt er að þegar upp verður staðið verði halli af rekstrinum sem nemur um það bil þeim viðbótarlaunahækkunum sem samið var um í byrjun árs, það er að segja þegar ákveðið var að launahækkanir þessa árs skyldu taka gildi í janúar en ekki í maí, eins og gengið hafði verið út frá í kjarasamningum í fyrra.“

Magnús Eðvald Kristjánsson frá Árvakri og Jón Axel.
Magnús Eðvald Kristjánsson frá Árvakri og Jón Axel. mbl.is/Golli

Rekstrartekjur fyrirtækisins námu tæpum 3,2 milljörðum á árinu 2015 og aðrar tekjur voru tæpar 128 milljónir. Rekstrarkostnaður nam tæpum 3,3 milljörðum og þá voru bókfærðar afskriftir að fjárhæð tæplega 100 milljónir króna. Stærstur hluti rekstrarkostnaðar voru laun og annar starfsmannakostnaður og nam hann tæpum tveimur milljörðum króna. Að meðaltali voru 184 starfsmenn hjá fyrirtækinu á árinu 2015 og að auki tæplega 500 blaðberar víðs vegar um landið.

Við síðustu áramót námu eignir Árvakurs tæpum 1.940 milljónum króna. Eigið fé þess stóð á sama tíma í tæpum 855 milljónum og eiginfjárhlutfall var því 44%.

Sótt fram á fleiri sviðum

Tilkynning um kaup Árvakurs á fyrrnefndum fyrirtækjum kemur í kjölfar þess að tilkynnt var um opnun tveggja nýrra vefsíðna sem reknar verða undir hatti mbl.is. Þannig var ný alhliða frétta- og upplýsingaveita um allt sem tengist sjávarútvegi opnuð í tengslum við sjávarútvegssýninguna í Laugardalshöll í síðustu viku. Á síðunni, sem ber heitið 200 mílur, er hægt að nálgast nýjustu upplýsingar um afurðaverð, gengisþróun og olíuverð, skipa- og útgerðaskrá, hafnaskrá, kvótatölur, staðsetningu skipa og margt fleira.

Þorvaldur B. Arnarsson (t.h.) sér um frétta- og greinaskrif og …
Þorvaldur B. Arnarsson (t.h.) sér um frétta- og greinaskrif og Valur Smári Heimisson (t.v.) annast sölu- og markaðsmál. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Umsjónarmaður vefjarins er Þorvaldur B. Arnarsson. Hann segir vefinn fara mjög vel af stað.

„Við erum gríðarlega ánægð með þær viðtökur sem vefurinn hefur fengið. Mér hefur lengi fundist vanta heildstæðan frétta- og upplýsingavef um sjávarútveg og er stoltur af því að fá að taka þátt í þessu verkefni,“ segir Þorvaldur.

Öflugur vefur um allt sem viðkemur mat

Þá mun seinni hluta október fara í loftið nýr og ferskur matarvefur. Umsjónarkona hans er Tobba Marínósdóttir, fjölmiðlafræðingur og ástríðukokkur. Vefurinn er hugsaður sem miðstöð matarunnenda en þar verður að finna mikið magn uppskrifta við allra hæfi.

Tobba Marínósdóttir mun hafa umsjón með nýjum matarvef á mbl.is.
Tobba Marínósdóttir mun hafa umsjón með nýjum matarvef á mbl.is. mbl.is/Golli

Efnið verður fjölbreytt og má þá helst nefna matreiðsluþætti, greinar um bestu veitingahús erlendra stórborga, veitingahúsarýni, eldhúsráð og verðkannanir í bland við skemmtilegt og óhefðbundið efni á borði við uppskriftir úr þekktum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Matarvefurinn mun birta frumsamdar uppskriftir sem eldaðar verða í nýju eldhúsi í stúdíói Árvakurs en þar verða einnig teknir upp matreiðsluþættir.

„Þetta er virkilega spennandi þróun og af nægu að taka enda hefur matarmenning hérlendis blómstrað síðustu ár. Ný veitingahús virðast opna vikulega, matavælaframleiðsla hérlendis er með frumlegasta móti og íslenskir matreiðslumenn láta til sín taka út um víða veröld. Við munum fylgja því vel eftir í bland við okkar eigin afrek í eldhúsinu,“ segir Tobba sem fengið hefur til liðs við sig úrvalsmatgæðinga og -kokka til að auka enn á fjölbreytni efnisins.

Það er því von á girnilegum lestri í októberlok en áhugasamir geta í millitíðinni fylgst með því sem koma skal á Instagram undir nafninu matur.a.mbl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert