„Eðli viðskiptanna“ hið sama frá 2005

Hreiðar Már Sig­urðsson, Ingólf­ur Helga­son og Sig­urður Ein­ars­son
Hreiðar Már Sig­urðsson, Ingólf­ur Helga­son og Sig­urður Ein­ars­son mbl

Hæstiréttur endurmat niðurstöðu héraðsdóms í öllu markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings í dómi sínum sem féll í gær. Var sýknu ákærðu í fjölda liða í héraði með því snúið við. Í málinu er ákært fyrir markaðsmisnotkun á tímabilinu 1. nóvember 2007 til falls bankans í byrjun október árið 2008. Þrátt fyrir það skoðar Hæstiréttur samskipti ákærðu allt aftur til ársins 2005 og segir að „eðli viðskiptanna sem hér um ræðir hafi verið það sama allt frá árinu 2005, þótt umfang þeirra hafi aukist til mikilla muna frá nóvember 2007.“

Dómur Hæstaréttar 131 blaðsíða

Er málið stærsta efnahagsbrotamál sem komið hefur til kasta dómstóla hér á landi. Voru níu fyrrverandi starfsmenn bankans sakfelldir í málinu, en ákært var fyrir markaðsmisnotkun og/eða umboðssvik. Dómur Hæstaréttar er heil 131 blaðsíða og talsvert lengri en dómur héraðsdóms í sama máli. Var hann 84 blaðsíður.

Frétt mbl.is: Allir sakfelldir í Kaupþingsmáli

Þau sem voru dæmd í málinu voru Hreiðar Már Sig­urðsson, fyrr­ver­andi for­stjóri bank­ans, Sig­urður Ein­ars­son, fyrr­ver­andi stjórn­ar­formaður bank­ans, Magnús Guðmunds­son, fyrr­ver­andi for­stjóri Kaupþings í Lúx­em­borg, Ingólf­ur Helga­son, fyrr­ver­andi for­stjóri Kaupþings á Íslandi, Ein­ar Pálmi Sig­munds­son, fyrr­ver­andi for­stöðumaður eig­in viðskipta Kaupþings, Birn­ir Sær Björns­son og Pét­ur Krist­inn Guðmars­son, starfs­menn eig­in viðskipta, Bjarki Diego, fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri út­lána Kaupþings, og Björk Þór­ar­ins­dótt­ir, fyrr­ver­andi lána­full­trúi í lána­nefnd bank­ans.

Dómur Hæstaréttar í heild sinni

Hæstiréttur endurmat niðurstöðu héraðsdóms

Í dómnum kemur fram að í niðurstöðu héraðsdóms hafi ekki verið byggt á sönnunargildi munnlegs framburðar heldur samtímagögnum. Því geti Hæstiréttur endurmetið niðurstöðuna. Samkvæmt lögum getur Hæstiréttur ekki endurmetið dóma sem byggja á munnlegum framburði. Í einum ákærulið dómsins orðar Hæstiréttur þetta svona: „Samkvæmt 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 getur Hæstiréttur ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði hafi gefið skýrslu hér fyrir dómi. Með því að niðurstaða héraðsdóms um þátt ákærðu Hreiðars Más, Sigurðar, Ingólfs og Magnúsar í þessari lánveitingu var ekki reist á mati á trúverðugleika framburðar þeirra og vitna heldur á túlkun samtímagagna stendur fyrrgreint lagaákvæði því ekki í vegi að Hæstiréttur endurmeti niðurstöðu héraðsdóms að þessu leyti.“ Er svipuð skýring notuð í flest öllum öðrum ákæruliðum líka.

Dómarar Hæstaréttar við dómsuppkvaðningu í gær.
Dómarar Hæstaréttar við dómsuppkvaðningu í gær.

Skoðuðu gögn utan ákærutímabilsins

Í svokölluðum kauphliðarhluta ákærunnar fer Hæstiréttur ítarlega yfir ýmis samskipti ákærðu sín á milli eða við aðra starfsmenn Kaupþings á þessum tíma. Það eru þeir Hreiðar, Sigurður, Ingólfur, Einar, Pétur og Birnir sem eru ákærðir undir þessum lið.

Eru endursögn Hæstaréttar og beinar vísanir í símtöl og tölvupósta í heild 15 blaðsíður í dóminum, en þar af er um helmingur frá tímabili sem er utan ákærutímabilsins, þ.e. fyrir 1. nóvember 2007.

Er þar meðal annars farið yfir aðkomu Hreiðars Más og Sigurðar að ákvörðunum um að kaupa bréf bankans á markaði til að „mæta söluþrýstingi“ eins og einn ákærðu orðaði það.

Meðal annars er vísað til tölvubréfs frá Sigurði í maí árið 2006 þar sem hann sagðist ekkert vera upplýstur um þær stöður sem deild eigin viðskipta bankans ætti í bankanum sjálfum.  „Hann kvaðst hafa hringt undanfarna mánuði, að minnsta kosti tvisvar á dag, og spurt frétta en ekki fengið upplýsingar um þessar stöður,“ segir í dómnum, en það hafi svo endað með að í framhaldi af þessu hafi bæði Sigurður og Hreiðar fengið reglulega pósta með stöðunni.

Segja ljóst að Sigurður og Hreiðar hafi fylgst með deildinni

Til að leggja áherslu á að Sigurður væri að fylgjast með þessum málum er aftur vísað í tölvupóst frá því í júní sama ár þar sem hann kvartar yfir að hafa aftur ekki fengið upplýsingar um stöðuna.

Sigurður og Hreiðar sögðu báðir fyrir héraðsdómi að þeir hefðu ekki skoðað nákvæmlega þessa stöðupósta og var það hluti af vörn þeirra að þeir hefðu ekki vitað af viðskiptum deildar eigin viðskipta.

Birn­ir Sær Björns­son, Ein­ar Pálmi Sig­munds­son og Pét­ur Krist­inn Guðmars­son
Birn­ir Sær Björns­son, Ein­ar Pálmi Sig­munds­son og Pét­ur Krist­inn Guðmars­son mbl

„Eðli viðskiptanna“ hið sama frá árinu 2005

Hæstiréttur lýsir svo ítarlega samskiptum starfsmanna deildarinnar þegar þeir ræða um hvernig þeir eigi að haga viðskiptum sem Hæstiréttur segir ljóst að hafi ekki verið til þess að endurspegla gildandi markaðsverð bréfanna. Tekið er fram að mikil breyting hafi orðið í nóvember árið 2007 og til falls bankans í umfangi viðskiptanna, það er að deildin hafi aukið viðskiptin til muna.

„Á hinn bóginn var allt frá upphafi og fram í október 2008 augljós fylgni milli þess hvernig gengi hlutabréfa í Kaupþingi banka hf. hreyfðist og þess hvernig deild eigin viðskipta bankans hagaði viðskiptum sínum í kauphöllunum. Þegar gengið hækkaði var dregið úr kaupunum en þegar það lækkaði jukust kaupin og urðu þeim mun meiri eftir því sem gengið féll meira,“ segir í dómnum og er dregin sú ályktun að „eðli viðskiptanna“ hafi alla tíð verið sú sama frá árinu 2005 þótt umfangið hafi aukist eftir nóvember 2007.

Utanþingssala ekki háð raunverulegu framboði og eftirspurn

Einn af aðalvarnarpunktum ákærðu í málinu var að þau kaup sem hafi verið stunduð á bréfum Kaupþings hafi verið hluti af óformlegri viðskiptavakt til að auka seljanleika bréfanna. Í dómi Hæstaréttar í markaðsmisnotkunarmáli Landsbankans er skýrt sagt að öll óformleg viðskiptavakt sé ólögleg. Hæstiréttur ítrekar þetta í Kaupþingsdóminum. Segir í dómnum að í stað þess að selja bréfin aftur á opnum markaði í Kauphöllinni (svokölluð pöruð viðskipti) hafi meirihluti bréfanna verið seldur í sjö stórum utanþingsviðskiptum. „Ekki er ljóst hvernig verð á hlutunum var ákveðið í þeim sjö utanþingsviðskiptum, sem að framan eru talin, en víst er að sú ákvörðun var ekki háð raunverulegu framboði og eftirspurn á markaði,“ segir í dómnum.

Samkvæmt lögum máttu bankar ekki eiga meira en 10% af eigin bréfum auk þess sem þurfti að tilkynna Kauphöllinni ef farið væri yfir eða undir 5% mörkin. Segir í dómnum að samskipti ákærðu gefi það „ótvírætt til kynna að það hafi ítrekað gerst að hlutfall eigin hlutafjár í Kaupþingi banka hf. af heildarhlutafé félagsins hafi verið komið nálægt þeim 5% mörkum, sem hefði kallað á flöggun, og virðist hlutfallið hafa oftar en einu sinni farið yfir mörkin, að minnsta kosti í skamman tíma. Engu að síður virðist það hafa verið einbeittur vilji ákærða Einars Pálma og undirmanna hans, ákærðu Birnis Sæs og Péturs Kristins, að hlíta fyrirmælum yfirstjórnar bankans um að forðast flöggun í lengstu lög. Engin haldbær skýring hefur fengist á því hvers vegna lögð var svo rík áhersla á að forðast flöggun, en með því var komið í veg fyrir að stórfelld kaup Kaupþings banka hf. á eigin hlutum í kauphöllum kæmust til vitundar almennings, þar á meðal þeirra þúsunda einstaklinga og félaga sem áttu hlutabréf í bankanum.

Björn Þorvaldsson, saksóknari málsins.
Björn Þorvaldsson, saksóknari málsins.

Hafði afskipti af einstökum viðskiptum undirmannanna

Þá segir að þau umfangsmiklu viðskipti sem ákærðu áttu þátt í að koma á „gáfu eða voru í það minnsta líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfa í Kaupþingi banka hf. ranglega eða misvísandi til kynna.“

Í tilfelli Ingólfs á kauphliðinni segir í dómnum að sannað sé að hann hafi gefið undirmönnum sínum almenn fyrirmæli og þeir hafi oft ráðfært sig við hann. Þá hafi hann beinlínis haft afskipti af einstökum viðskiptum, stundum oft á dag. Er hann því sekur um brotin sem ákært er fyrir.

Hafið yfir skynsamlegan vafa að þeir vissu um viðskiptin

Í tilfellum Hreiðars Más og Sigurðar segir að það sé „hafið yfir skynsamlegan vafa að hin umfangsmiklu viðskipti deildar eigin viðskipta Kaupþings banka hf. með hluti í félaginu gátu ekki farið fram án vitundar“ þeirra og vilja.

Snúið við dómi héraðsdóms og Hreiðar og Sigurð sakfelldir

Í öðrum kafla ákærunnar er fjallað um markaðsmisnotkun á söluhliðinni, en þar voru þeir Ingólfur, Hreiðar, Sigurður og Magnús ákærðir. Í héraði voru Hreiðar, Sigurður og Magnús sýknaðir. Hæstiréttur endurmetur þó niðurstöðuna með sömu ástæðu og í fyrsta kafla ákærunnar.

Segir í dómi Hæstaréttar „sannað að ákærðu Hreiðar Már og Sigurður hafi í sameiningu með ákærða Ingólfi komið á viðskiptum milli Kaupþings banka hf. og félaganna þriggja með umrædda hluti.“ Þá er sagt Magnúsi hafi átt hlut í viðskiptunum með liðsinni sínu við að koma viðskiptunum á og hafi honum átt að vera ljóst að þau myndu gefa ranga mynd af verði bréfa Kaupþings, eða væru líkleg til þess.

Brutu ákvæði regluhandbókar

Í þriðja kafla er ákært fyrir umboðssvik eða hlutdeild að þeim við að lána þremur félögum háar upphæðir til kaupa á bréfum í Kaupþingi þar sem bréfin sjálf voru að stærstum hluta veð lánanna. Hæstiréttur gerir eins og í fyrri köflum ákærunnar og endurmetur niðurstöðu héraðsdóms í þessum hluta. Eru þau Hreiðar, Sigurður, Bjarki, Björk, Ingólfur og Magnús ákærð undir þessum lið.

Magnús Guðmunds­son, Bjarki Diego og Björk Þór­ar­ins­dótt­ir.
Magnús Guðmunds­son, Bjarki Diego og Björk Þór­ar­ins­dótt­ir. mbl

Segir í dómnum að ákvæði regluhandbókar bankans hafi verið brotin við lánveitingar. Þá var í einu tilfelli ekki gerð neitt lánshæfismat þrátt fyrir skýrar reglur þar um þegar lán upp á 12 milljarða var veitt og síðar annað lán til sama félags upp á 16 milljarða. Þá hafi ekki verið búið að ganga frá tryggingum sem áttu að vera til staðar.

Sýknu Magnúsar og Bjarkar breytt í sakfellingu

Björk og Magnús höfðu verið sýknuð fyrir héraði, en eru bæði dæmd í þessum hluta fyrir Hæstarétti. Björk er fundin sek um „ónothæfa tilraun til brots,“ í tengslum við lánveitingu til félagsins Holts investments. Magnús var þá fundinn sekur í tengslum við lánveitingar til félagsins Desulo. Þá snýr Hæstiréttur einnig við niðurstöðu héraðsdóms í nokkrum liðum þessa hlutar þegar kom að Sigurði og Hreiðari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert