Skýrt kom fram hjá fulltrúum Reykjavíkurborgar strax í byrjun að Hjálpræðisherinn fengi ekki felld niður byggingarréttargjald vegna nýbygginga hans, að sögn Hjördísar Kristinsdóttur, deildarritara hans. Tillaga minnihluta borgarráðs um að fella það niður var ekki lögð fram í samráði við Hjálpræðisherinn.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvinar lögðu fram tillögu um að fella niður byggingarréttargjöld á lóð sem Hjálpræðisherinn á að fá úthlutað við Suðurlandsbraut. Meirihlutinn felldi þá tillögu og sagði Halldór Auðar Svansson, borgarfulltrúi Pírata, að Hjálpræðisherinn hefði enga kröfu gert um að fá gjaldið fellt niður.
Frétt Mbl.is: „Köld kveðja til Hjálpræðishersins“
Hjördís segir þetta þó ekki rétt því í fyrsta formlega bréfi sem Hjálpræðisherinn sendi borginni vegna lóðarinnar hafi komið fram að hann vildi freista þess að vera undanþegin þessu gjaldi. Á fyrsta fundi með borginni hafi hins vegar komið skýrt fram að það kæmi ekki til greina.
„Þetta væri bara eitthvað sem þeir vildu koma sér út úr. Að þetta væri gjörningur sem þeir vildu ekki að héldi áfram,“ segir Hjördís og vísar til niðurfellingar borgarinnar á gjöldum á lóðum til trúfélaga.
„Við erum kannski ekki mikið að fara í mál við fólk. Við hefðum kannski getað gert það og látið reyna á jafnræðisreglu en við ákváðum bara að taka engan slag um þetta af því að það er bara ekki þannig sem Hjálpræðisherinn kýs að vinna,“ segir Hjördís.
Það var heldur ekki að frumkvæði Hjálpræðishersins sem minnihlutinn í borgarráðið tók málið upp, að sögn Hjördísar. Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði við Mbl.is í gær að tillagan hafi verið lögð fram að höfðu samráði við fulltrúa Hjálpræðishersins.
Frétt Mbl.is: Vísvitandi daður við múslimaandúð
Það segir Hjördís hins vegar sömuleiðis vera rangt. Hjálpræðisherinn hafi heyrt af tillögunni og eina sem hann hafi gert hafi verið að senda Kjartani stutt tölvubréf þar sem honum var þakkað fyrir að taka það upp.
„Þessi tillaga hafði verið lögð fram áður en við vissum nokkuð um það. Við erum í raun varla aðilar og erum utan við þessar umræður allar. Við höfum ekki blandað okkur í þetta með neinum hætti nema að við þökkuðum bara Kjartani fyrir að hafa tekið málið upp. Það var í raun og vera eina aðkoma okkar að þessu máli,“ segir hún.
Hjördís segist þó ekki líta svo á að Hjálpræðisherinn sé orðinn að einhvers konar bitbeini á milli meiri- og minnihlutans í borgarráði. Hjálpræðisherinn hefði verið afar þakklátur ef hann hefði fengið gjaldið fellt niður.
„Ég lít svo á að þetta sé bara prinsippmál sem borgarráðsmenn eru að takast á um,“ segir hún.
Halldór Auðar vísaði til þess í samtali við Mbl.is í hádeginu að starfsemi Hjálpræðishersins sé nokkur annars eðlis en kirkna eða annarra tilbeiðsluhúsa trúfélaga um hvers vegna ekki hafi verið talið við hæfi að fella niður gjöldin líkt og gert hefur verið fyrir önnur trúfélög. Sama sjónarmið kom fram í bókun meirihlutans í borgarráði í gær.
Hjördís gerir athugasemd við þetta. Í nýju húsi Hjálpræðishersins við Suðurlandsbraut komi til með að vera tilbeiðslustaður hans.
„Við lítum svo á að guðsþjónusta liggi í öllu sem við gerum alltaf og það er meðal annars líka þjónusta við náungan okkar. Í hverju sú tilbeiðsla ætti að felast til að vera undanþegin þessu gjaldi veit ég ekki alveg,“ segir hún.
Úr því að borgin vildi ekki fella niður gjaldið segir Hjördís að verðið sem Hjálpræðisherinn greiðir fyrir lóðina sé mjög sanngjarnt.
„Það er sanngjarnt miðað við að við vorum ekki að borga markaðsvirði sem þau hefðu alveg geta sett á lóðina,“ segir hún.
Að því leyti sé það satt hjá fulltrúum meirihlutans að samið hafi verið um verð fyrir lóðina sem Hjálpræðisherinn hafi gengið að.