„Ég hef ekki séð annað eins. Öll hótelbyggingin titraði, hér var ekkert rafmagn eða vatn,“ segir Aníta Ösp Ingólfsdóttir kokkur sem býr á Bahamaeyjum þar sem fellibylurinn Matthew reið yfir í gær. „Þetta byrjaði klukkan þrjú í gær og stóð yfir þar til klukkan sex í morgun,“ segir Aníta en vindhraði var mestur um 60 m/s að því er AFP-fréttastofan greinir frá.
Þegar Aníta skoðaði aðstæður í morgun blasti við henni eyðilegging. Stór og mikil pálmatré höfðu brotnað og fallið ofan á bíla og hús. „Þeir segja að það hafi aldrei komið svona harður fellibylur hingað áður. Þessi var af fjórðu gráðu,“ segir Aníta. „Augað sjálft kom akkúrat yfir eyjuna og á tímabili varð logn.“
„Ég segi kannski ekki að ég hafi verið hrædd um líf mitt en þetta var mjög „spúkí“,“ segir Aníta. „En ég var samt hrædd. Þetta er ekkert grín.“ Aníta fékk þær fregnir rétt áður en mbl.is hafði samband við hana að útlit sé fyrir að vatns- og rafmagnsleysi verði viðvarandi vandamál á næstu vikum, jafnvel heilan mánuð.
Segir hún því að fellibylurinn gæti þýtt að dvöl hennar á eyjunni verði styttri en upphaflega stóð til. Það sé þó allt til skoðunar og ekkert ákveðið hvað verður.
Aníta starfar sem kokkur á veitingahúsinu sem þau Þóra Sigurðardóttir og Völundur Snær Völundarson ráku á Bahama-eyjum í fjölda ára. Aníta segir að staðurinn sé allur undir berum himni og því hafi verið búið að gera viðeigandi ráðstafanir fyrir storminn, þ.e. búið að koma lausamunum og öðru í skjól. Þau Þóra og Völundur segja það skrítna tilfinningu að standa á hliðarlínunni þegar vinir þeirra séu að upplifa einar mestu hörmungar lífs síns.
„Við höfum upplifað nokkra fellibyli þarna úti og stormurinn sjálfur er sjaldnast það versta. Eftirleikurinn á eyju þar sem allt er bókstaflega í rúst er erfiður, á öllum sviðum. Bæði er eyðileggingin mikil, erfitt er að fá vistir, rafmagn, hreint vatn og helstu nauðsynjar. Vistkerfið fer í flækju og þetta verður margra mánaða verkefni að koma málum í samt lag aftur,“ segja þau Þóra og Völundur í samtali við mbl.is.
Aníta býr á hóteli þar sem hún hefur verið í þann mánuð sem hún hefur búið á Bahama-eyjum. Hún segir marga starfsmenn hótelsins hafa dvalið þar í nótt þar sem ekki hafi verið óhætt að halda til á heimilum þeirra sem eru við sjóinn. „Þeir eru margir núna með hjartað í buxunum að fara heim og kíkja á húsin sín,“ segir Aníta.
Hún segir samfélagið hjálpast við að koma hlutum á réttan kjöl að nýju. „Það fóru allir strax í að reyna að laga það sem hægt er að laga hér á hótelinu og svo var farið á næstu staði og reynt að hjálpa,“ segir Aníta. Spurð hvernig næstu dagar verða hjá henni segir hún það ekki í forgangi að opna veitingahúsið aftur. „Það er allt í lamasessi eins og er. Ég hugsa að ég reyni bara að hjálpa öðrum.“