„Sluppum við mesta vindinn“

Íbúar og verslunareigendur á Miami bjuggu sig undir komu Matthews …
Íbúar og verslunareigendur á Miami bjuggu sig undir komu Matthews með því að birgja hurðir og glugga. AFP

Jón Eggert Guðmundsson, sem er búsettur á Miami, segir fellibylinn Matthew sem nú er úti fyrir ströndum Flórída, vera farinn framhjá Miami. „Við sluppum vel. Það var ofsarigning í allan gærdag en við sluppum við mesta vindinn,“ segir Jón Eggert. Flóðgarðar virðist hafa haldið og eins hafi rafmagn ekki farið af borginni.

„Fellibylurinn er núna að fara yfir Norður-Flórída og eins og er þá er vindhraðinn meðfram ströndinni á bilinu 64-113 km,“ segir hann og bætir við að nær auga stormsins þá mælist vindhraðinn vel yfir 160 km.

Þó Miami hafi sloppið vel frá Matthew í nótt þá telja sumir veðurfræðingar að hann kunni að snúa við og komi aftur yfir Flórída á morgun og að þá verði Miami á leið hans. Jón Eggert segist því þurfa að fylgjast áfram vel með veðurfregnum 

Jón Eggert, sem hjólaði um strendur Íslands nú í sumar, var aftur á Íslandi í síðustu viku en kom til baka til Miami á miðvikudagskvöldið. Hann segir Miamibúa hafa verið á fullu að undirbúa sig fyrir komu Matthews þegar hann kom heim.

„Það eru hlerar fyrir öllum gluggum og hurðum og þeir eru alltaf virkjaðir þegar von er á fellibyl. Síðan birgir fólk sig upp af vistum til langs tíma.“ Líkt og aðrir íbúar þá birgði hann sig upp af vatni, rafhlöðum og öðrum vistum. Honum brá þó óneitanlega þegar hann kom í búðina í gær. „Það var ekkert nema hreinlætisvörur eftir. Hillurnar voru tómar og allur matur var búinn.“

Jón Eggert segir Miamibúa ekki hafa verið í hópi þeirra Flórídabúa sem voru beðnir um að yfirgefa heimili sín og halda lengra inn í land. „Það var gefinn út tilkynning og þeir sem eru á fyrirframskilgreindum flóðasvæðum, þeim var gert að fylgjast vel með í fjölmiðlum hvort vatnsborð hækki.“ Jón Eggert býr á einu þessar svæða og hann segir þann hátt hafðan á að ef rafmagnið fari af þá komi herinn og sæki fólk og flytji það í birgi. Það hafi þó ekki gerst að þessu sinni.

„Ég hef bara geta verið heima. Ég er ennþá bara inni og með hlerana fyrir hurðum og gluggum, þannig að ég mun ekki sjá fyrr en ég kem út í fyrramálið hvort Matthew hafi valdið einhverju tjóni.“

Klukkan var þrjú að nóttu að staðartíma þegar Jón Eggert ræddi mbl.is  og segist hann hafa orðið verulega var við veðrið í byrjun nætur. Hann hafi hins vegar haldið sig innandyra líkt og yfirvöld fóru fram og segir að svo virðist sem Miamibúa hafi almennt hlýtt þessum tilmælum.

Jón Eggert segir fjölskylduna heima á Íslandi óneitanlega hafa nokkrar áhyggjur af honum þarna úti þegar fréttir hafi borist af Matthew. „Ég hef þó reynt að verið duglegur að láta þau vita hvað er að gerast.“

Jón Eggert Guðmundsson býr í Miami og varð var við …
Jón Eggert Guðmundsson býr í Miami og varð var við komu fellibylsins Matthew í nótt. Myndin er frá því hann lauk hjólaferð um strandvegi Íslands í sumar. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert