Vísvitandi daður við múslimaandúð

Húsnæði Hjálpræðishersins við Suðurgötu sem hann er að yfirgefa.
Húsnæði Hjálpræðishersins við Suðurgötu sem hann er að yfirgefa. mbl.is/Árni Sæberg

Minnihlutinn í borgarráði er vísvitandi að daðra við múslimaandúð með því að tengja höfnun meirihlutans á að fella niður byggingarréttargjald fyrir Hjálpræðisherinn aðeins við byggingu mosku, að mati Halldórs Auðars Svanssonar, borgarfulltrúa Pírata. Hjálpræðisherinn hafi ekki sóst eftir slíkri niðurfellingu.

Meirihlutinn í borgarráði felldi tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina um að borgin felli niður byggingarréttargjald vegna úthlutunar lóða til Hjálpræðishersins við Suðurlandsbraut í gær. Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sakaði meirihlutann um að senda Hjálpræðishernum „kaldar kveðjur“ í viðtali við Mbl.is í gær. Í bókun minnihlutans var meðal annars vísað til þess að Félag múslima hafi fengið slík gjöld felld niður vegna lóðar við sömu götu.

Frétt Mbl.is: „Köld kveðja til Hjálpræðishersins“

Halldór Auðar segir að ákvarðanir á fyrri stigum úthlutunarinnar til Hjálpræðishersins hafi verið samþykktar einróma. Búið hafi verið að semja um ákveðið verð á lóðunum og viljayfirlýsing um söluna samþykkt einróma af borgarfulltrúum. Það hafi ekki verið fyrr en að átti að ganga endanlega frá úthlutuninni sem fulltrúar minnihlutans hafi lagt fram tillögu sína um að fella niður byggingarréttargjaldið.

„Að stilla því upp með einhverri tillögu sem er hent inn á lokametrum samningaferlis um upplegg sem er bara ekki heppilegt, að það sé verið að henda einhverri kaldri kveðju í Hjálpræðisherinn, mér finnst það bara vítaverð framsetning. Ég tel ekki ástæðu til að taka slíkum ásökunum þegjandi,“ segir borgarfulltrúinn.

Starfsemin önnur en í tilbeiðsluhúsum

Borgin hefur fram að þessu túlkað ákvæði laga um að sveitafélög felli niður gjöld á lóðum undir kirkjur sem svo að gæta þurfi jafnræðis gagnvart öllum trúfélögum. Því hafa aðrir söfnuðir en þjóðkirkjan fengið úthlutað lóðum án gjalda og segir Halldór Auðar ákveðna hefð hafa skapast um það.

Hjálpræðisherinn er skráð trúfélag en engu að síður segir Halldór Auðar ekki víst að það þýddi að fella ætti niður gjöld á lóð til félagsins. 

Halldór Auðar Svansson, borgarfulltrúi Pírata.
Halldór Auðar Svansson, borgarfulltrúi Pírata.

„Mögulega hefðu þeir getað sótt um einhverjar ívilnanir á þeim grunni en það er ekkert víst að þeir hefðu fengið þær miðað við að starfsemi þeirra er kannski annars eðlis en til dæmis kirkna eða annarra tilbeiðsluhúsa,“ segir Halldór Auðar.

Borgarráð hafi óskað eftir umsögn skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar Reykjavíkurborgar. Hún mælti gegn því að tillaga minnihlutans væri samþykkt vegna óskýrleika slíks styrks. Ef styrkja ætti Hjálpræðisherinn mætti frekar gera gagnkvæma þjónustusamninga en að fella niður byggingarréttargjald. Halldór Auðar segir ekki útilokað að það verði gert.

Ræða ekki úthlutanir til annarra en múslima

Óháð því segir Halldór Auðar að Hjálpræðisherinn hafi alls ekki sóst eftir því að fá byggingarréttargjaldið fellt niður þegar félagið óskaði eftir lóðinni. Þvert á móti hafi verið tekið fram að félagið gerði sér grein fyrir að það þyrfti að greiða fyrir lóðina.

„Hjálpræðisherinn sótti ekki um þessa lóð á þeim forsendum að hann væri trúfélag. Sá vinkill á málinu kom í rauninni aldrei upp,“ segir Halldór Auðar sem telur að það hafi verið hersins að óska eftir niðurfellingu gjalda hefði hann haft áhuga á því.

Hann er einnig ósáttur við í hvaða samhengi fulltrúar minnihlutans hafi kosið að setja úthlutunina til Hjálpræðishersins í málflutningi sínum.

„Mér finnst mjög sérkennilegt að stilla þessu alltaf til móts við lóðaúthlutun til Félags múslima sem fór fram á síðasta kjörtímabili og var sú síðasta í röðinni en ræða ekki í samhenginu öll önnur trúfélög sem hafa fengið lóðir. Rússneska rétttrúnaðarkirkjan, Ásatrúarfélagið og fleiri. Það er eins og það sé alltaf vísvitandi verið að vaða í eitthvað daður við múslimaandúð svo ég segi eins og er. Það er annar þáttur í þessu sem mér finnst engin ástæða til að taka þegjandi og láta eins og ég sjái ekki,“ segir Halldór Auðar sem túlkar málflutning minnihlutans klárlega sem daður við múslimaandúð.

Til þess fallið að kolrugla umræðuna

Kjartan Magnússon sagði við Mbl.is í gær að tillagan hafi verið lögð fram að höfðu samráði við forsvarsmenn Hjálpræðishersins. Halldór Auðar segist hins vegar ekkert hafa heyrt frá Hjálpræðishernum um niðurfellingu gjalda heldur hafi hann tekið afstöðu til þeirra gagna sem voru lögð fram í borgarráði.

„Mér finnst frekar undarlegt upplegg að kjörinn fulltrúi segist vera að ganga erinda einhvers aðila sem er í samningum við borgina sem er verið að taka afstöðu til í borgarráði og kemur fyrir þeirra hönd að eigin sögn með eitthvað allt annað upplegg en sá aðili sjálfur er með. Það er eitt atriði sem er bara til þess fallið að kolrugla umræðuna og það er ekki góð stjórnsýsla,“ segir Halldór Auðar.

Hvað lóðaúthlutanir til trúfélaga almennt varðar segir Halldór Auðar að borgarráð hafi ályktað að endurskoða ætti lög til að gera það skýrara að sveitarfélögunum sé ekki skylt að úthluta lóðum endurgjaldslaust til trúfélaga. Við því hafi þingið hins vegar ekkert brugðist hingað til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert