„Ég vildi fyrst vera í bænum og sjá hvernig þetta yrði,“ segir Tómas Þórður Hilmarsson, háskólanemi í bænum Florence í Suður-Karólínu í Bandaríkjunum, en hann flúði íbúð sína yfir í annan bæ í Suður-Karólínu ásamt liðsfélögum sínum í körfuboltaliðinu vegna fellibyljarins Matthew sem hrellt hefur íbúa austurstrandar Bandaríkjanna og Suður-Ameríku á undanförnum dögum.
Frétt mbl.is: „Það versta er líklega enn eftir“
„Við fórum í Walmart og ætluðum að kaupa birgðir. Allt vatn og brauð var búið. Fólk fór úr búðinni með troðfullar kerrur eins og heimsendir væri í nánd,“ segir Tómas en hann er á sínu fyrsta ári í markaðsfræði við Francis Marion-háskóla í Florence.
Þegar mbl.is náði tali af Tómasi í gær hafði hann reynt að ná sambandi við liðsfélaga sína í körfuboltaliðinu sem ákváðu að vera eftir í Florence á meðan hluti liðsmanna fór til Spartanburg, sem er í tæplega þriggja tíma akstursfjarlægð frá Florence, þar sem þeir fengu inni hjá ættingja eins þeirra. „Ég næ ekkert í þá. Ég hugsa að þeir séu sambandslausir,“ sagði Tómas.
Hann segir þá félaga hafa yfirgefið borgina á miðvikudaginn en frí var gefið í skólanum frá miðvikudegi fram að helgi. „Síðast þegar við fengum hitabeltisstorm, sem er ekkert í líkingu við þetta, þá vorum við rafmagnslausir heilt kvöld. Við reiknuðum með að verða rafmagnslausir heila helgi,“ segir Tómas.
Í Spartanburg var grenjandi rigning þegar mbl.is heyrði í Tómasi í gærkvöldi en hann sagði íbúana þar vera mun rólegri en í Florence. „Við sleppum hér að mestu við fellibylinn sjálfan,“ segir Tómas. Hann bætir við að Florence sé í u.þ.b. klukkustundar fjarlægð frá Myrtle Beach en þar var fólki skipað að flýja heimilin sín vegna fellibyljarins.