„Þessi vegakafli er dauðans alvara“

Hópurinn hefur barist fyrir tvöföldun Reykjanesbrautar.
Hópurinn hefur barist fyrir tvöföldun Reykjanesbrautar. mbl.is/Golli

Óljósar merkingar eru við framkvæmdasvæði á Reykjanesbrautinni, þar sem tveggja bíla árekstur varð fyrr í dag. Þetta segir Atli Már Gylfason, einn talsmanna hópsins „Stopp, hingað og ekki lengra“ sem barist hefur fyrir tvöföldun brautarinnar.

Frétt mbl.is: Árekstur á Reykjanesbraut

„Það eru þarna illa skornir gangstéttarkantar, til dæmis þegar þú kemur frá Fitjum og tekur vinstri beygjuna inn á þetta svæði. Það virðist ekki hafa verið staðið nógu vel að þessu,“ segir Atli í samtali við mbl.is.

„Tjón hefur orðið á bílum sem keyrt hafa á kantana og nauðsynlegt er fyrir Vegagerðina að laga þann bráðabirgðakafla sem þarna er. Þessi vegakafli er dauðans alvara, það er bara þannig.“

Þurft að ganga yfir Reykjanesbraut

Banaslys varð í júlímánuði á sama stað og segir Atli að fyrir löngu hafi verið kominn tími á umræddar framkvæmdir, sem snúa að gerð undirganga fyrir íbúa Ásbrúar.

„Uppi á Ásbrú, þessu risavaxna svæði, er engin kjörbúð og fólk hefur þurft að sækja flesta þjónustu hinum megin við Reykjanesbrautina. Margir sem eru þarna, háskólanemar til dæmis, eru ekki á bíl og hafa því þurft að ganga yfir brautina.“

Lög­regl­an á Suður­nesj­um gat ekki sagt til um alvarleika slyssins en sagði fólkið ekki í lífs­hættu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert