„Heyrði hann taka í húninn“

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Þórður

Júlíus Ármann Júlíusson íþróttaþjálfari vaknaði í nótt og fór fram til þess að sækja sér vatnsglas. Fyrir tilviljun sér hann mann  taka í hurðarhúna húsa í götunni og á bifreiðum. Þegar Júlíus sér hann taka í húninn á íbúðinni á neðri hæðinni og liggja á glugga íbúðarinnar stökk hann út og handtók manninn borgaralega.

Að sögn Júlíusar, sem býr í Eskihvammi í Kópavogi, var það algjör tilviljun að hann fór fram og sá manninn ráfa á milli húsa í götunni á þriðja tímanum í nótt. „Ég fór nú bara fram til þess að sækja mér vatnsglas,“ segir Júlíus en hann hélt í fyrstu að um blaðbera væri að ræða en sá fljótt að það gat ekki verið miðað við háttarlag mannsins sem hvarf reglulega sjónum þegar hann fór á milli húsa í götunni.

Frétt mbl.is: Hélt þjófnum föstum

Á hæðinni fyrir neðan Júlíus og fjölskyldu hans býr kona með nýfætt barn og þegar Júlíus sá manninn grípa um hurðarhúninn á hennar íbúð og liggja á glugga íbúðarinnar stökk hann út. 

Í samtali við mbl.is segir Júlíus að maðurinn hafi reynt að forða sér á hlaupum en honum tekist að snúa manninn niður og halda honum. Konan á neðri hæðinni var þá vöknuð og eins eiginkona Júlíusar og hringdu þær báðar á lögreglu sem kom á vettvang skömmu síðar.

Maðurinn barðist um á hæl og hnakka en Júlíus, sem er bæði knattspyrnu- og íþróttaþjálfari, náði að halda honum niðri þangað til lögreglan tók við og handtók manninn. Við leit á honum fundust ýmsir munir sem maðurinn viðurkenndi að hafa stolið úr bifreiðum í götunni. Hann gistir nú fangageymslur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert