Segja skerðingar og mismunun aukast

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (t.v.) og Oddný Harðardóttir (t.h.) gagnrýndu breytingar …
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (t.v.) og Oddný Harðardóttir (t.h.) gagnrýndu breytingar á frumvarpi um almannatryggingar á Alþingi í dag. mbl.is/Eggert

Stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar tókust á um kjarabætur til eldri borgara og öryrkja á Alþingi í dag. Þingmenn stjórnarandstöðunnar sögðu breytingar ríkisstjórnarinnar auka mun á milli bótaþega eftir heimilisstöðu og skerðingar en ráðherrar að þeir njóti allir góðs af breytingunum.

Ríkisstjórnin kynnti breytingar sem hún leggur til að verði gerðar á frumvarpi um breytingar á almannatryggingakerfinu og aukna fjármuni til að hækka ellilífeyri og örorkubætur á föstudag. Í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun gagnrýndi Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, að fólk í sambúð fái hlutfallslega minni hækkun en þeir sem búa einir og þá séu bætur þeirra sem búa einir skertar hlutfallslega meira en áður.

Fullyrti hún að verið væri að hækka greiðslur til öryrkja og eldri borgara með nánasarlegum hætti, blekkja fólk og auka mun eftir búsetuformi.

Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra sagði fullyrðingar Sigríðar Ingibjargar rangar. Verið sé að bæta verulega í málaflokkinn með 10,8 milljörðum króna til viðbótar við kerfisbreytingar fyrir ellilífeyrisþega. Því miður sagði hún að stjórnarandstaðan hafi staðið að því með Öryrkjabandalaginu að koma í veg fyrir kerfisbreytingar fyrir öryrkja.

Komið hafi fram að staða bótaþega sem búa einir sé verri en þeirra sem eru í sambúð. Mjög fáir séu í þeirri stöðu að vera í sambúð og njóta ekki góðs af breytingunum sem ríkisstjórnin boðar. Hins vegar eigi að ráðast í verulegar hækkanir á bótum. Allir ættu að fara betur út úr þeim á grundvelli þess sem Eygló kallaði styrka efnahagsstjórn þessarar ríkisstjórnar.

Áður hafði Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra sagt að mikilvægast væri að koma til móts við þá sem verst standa. Með breytingunum á almannatryggingakerfinu sé verið að taka gríðarlega stórt skref fram á við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert