„Eins og í góðri rigningartíð“

Grafa Vegagerðarinnar að störfum við Múlakvísl fyrr í dag.
Grafa Vegagerðarinnar að störfum við Múlakvísl fyrr í dag. mbl.is/Jónas Erlendsson

Starfsmenn Vegagerðarinnar og verktakar eru búnir undir útköll þegar líður á nóttina. Þetta segir Ágúst Freyr Bjartmarsson, verkstjóri Vegagerðarinnar í Vík, í samtali við mbl.is.

„Hér í Vík er þetta bara eins og í góðri rigningartíð. Víkuráin er svipuð og hún er eftir þannig veður. Enda segjum við gjarnan að í Vík rigni tvisvar í viku. Fyrst í þrjá daga og svo í fjóra,“ segir Ágúst og hlær við.

„En það er töluvert meira vestan við okkur og eins í ánum fyrir austan. Í augnablikinu er allt í fínu lagi en maður veit ekki alveg hvernig nóttin verður.“

„Spá svo miklu í nótt“

Fyrr í dag reisti Vegagerðin varnargarð til að stýra vatninu í farveg undir brúna yfir Múlakvísl, sem reist var til að þola mikil jökulhlaup.

„Þar er engin hætta, nema þetta verði eitthvað óskaplegt, sem við vitum ekki. Þeir spá svo miklu í nótt,“ segir Ágúst. 

„Maður gerir alveg ráð fyrir að það verði einhver skot í kvöld og nótt. Lögreglan verður á ferðinni og við verðum reiðubúnir að stökkva út ef þess gerist þörf.“

mbl.is greindi fyrr í kvöld frá því að veginum á milli Grundarfjarðar og Ólafsvíkur hefur verið lokað vegna veðurs. Þá er vegfarendum bent á að ekkert ferðaveður er á norðanverðu Snæfellsnesi.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert