„Mjög dapurlegt“

Þorsteinn Sæmundsson.
Þorsteinn Sæmundsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir það mjög dapurlegt að frumvörp um LÍN og greiðslur ríkissjóðs til lífeyrissjóða hafi ekki náð fram að ganga á Alþingi.

„Ég vona að námsmannasamtökin minnist þess hverjir það voru sem komu í veg fyrir að þetta frumvarp verði að lögum og hugsi sig vel um áður en þeir greiða atkvæði sitt,“ sagði Þorsteinn á Alþingi.

Hann sagði einnig dapurlegt að lífeyrisfrumvarpið hafi dagað uppi. Það verði til þess að launþegar þurfi að borga 20% hærra iðgjald og allt fari til baka á byrjunarreit. „Ég hef miklar áhyggjur af því að þetta geti haft áhrif til lengri tíma. Því miður hefur hvorugt þessara mála hlotið náð fyrir augum alls þingheims. Kjósendur þurfa að hafa í huga á hvers ábyrgð þetta er,“ sagði hann.

Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, steig skömmu síðar í pontu og sagðist mjög sátt við að hafa staðið gegn frumvarpinu.

„Það er ekki nema von að Þosteinn Sæmundson telji það vera glappræði að LÍN-málið komist ekki í gegn enda hefur háttvirtur þingmaður greinilega ekki kynnt sér það nógu vel. Þetta mál var bundið þeim vanköntum að allir útreikningar sem voru í boði voru bundir við einhverja galdra. Þarna var verið í raun að blekkja þingheim með því að segja að 85% stúdenta myndu koma betur út," sagði Ásta Guðrún. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert