Rúmlega 16 mánuðir eru liðnir síðan fjárkúgunarmál gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þáverandi forsætisráðherra, kom upp, en ekki er enn komin niðurstaða hjá héraðssaksóknara um ákæru í málinu.
Málið er í raun tvíþætt, en það snýst í fyrsta lagi um meinta fjárkúgun systranna Hlínar Einarsdóttur og Malínar Brand sem beindist gegn Sigmundi. Nokkrum dögum síðar voru systurnar kærðar fyrir aðra fjárkúgun. Karlmaður kærði þær fyrir að hafa haft af sér 700 þúsund krónur. Systurnar sögðu þá peninga vera miskabætur vegna nauðgunar en maðurinn á að hafa nauðgað Hlín. Eftir að maðurinn kærði fjárkúgunina kærði Hlín hann fyrir nauðgun.
Samkvæmt upplýsingum mbl.is er það rannsókn á seinna málinu sem hefur tafið málið talsvert auk þess sem miklar annir hafa verið vegna gæsluvarðhaldsmála hjá embætti héraðssaksóknara, en þau njóta eðli málsins samkvæmt forgangs.
Samkvæmt svörum sem mbl.is hefur fengið frá embættinu styttist í að niðurstaða um ákæru liggi fyrir í málinu.
Fyrst var sagt frá málinu í fjölmiðlum þriðjudaginn 2. júní í fyrra, en lögreglan hafði handtekið þær systur föstudeginum áður þegar þær reyndu að hafa fjármuni af þáverandi forsætisráðherra. Á miðvikudaginn steig fyrrverandi samstarfsmaður Hlínar fram og kærði hana einnig fyrir fjárkúgun, en stuttu síðar lagði Hlín fram kæru á hendur manninum fyrir nauðgun. Kom fram í tilkynningu sem Malín sendi frá sér að hún hefði fengið greiðslu frá manninum sem væru miskabætur til systur sinnar vegna málsins.
Í lok ágúst var greint frá því að rannsóknin á fjárkúgunarmálinu gegn forsætisráðherra væri langt komin og í október var haft eftir lögreglu að rannsóknin væri á lokastigum. Henni lauk svo um mánaðamótin október/nóvember og fór málið til ríkissaksóknara, en þaðan fór málið svo til héraðssaksóknara eftir áramót þegar embætti héraðssaksóknara var stofnað og tók yfir fjölda mála frá ríkissaksóknara í leiðinni.
Rannsókn á seinna málinu dróst aftur á móti fram yfir áramót og það var ekki fyrr en í maí sem málin voru bæði komin til saksóknara. Haft var eftir Kolbrúnu Benediktsdóttur, saksóknara í málinu, í maí að málin séu eðlislík og að sakborningar eigi rétt á því að mál séu tekin saman þegar vitað er um fleiri en eitt mál í gangi á sama tíma.