Af hverju ekki Björgólfur og Þorsteinn?

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings.
Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings. mbl.is/Ómar

Forstjóri Glitnis banka hafði samráð við Þorstein Má Jónsson, fyrrverandi stjórnarformann bankans, þegar tekin var ákvörðun um lánveitingar sem ákært er fyrir í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis. Þá undirrituðu þeir báðir lánabeiðnirnar, en fjórtán stjórnendur bankans fengu lánaðar 6,77 milljarða til að kaupa bréf í bankanum. Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings banka, greinir frá þessum tengslum Þorsteins í aðsendri grein á Vísi, en hann segir þá ákvörðun að ákæra sig en ekki aðra stjórnarformenn hinna bankanna vera brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og stjórnsýslulaga.

Þegar Þorsteinn mætti til að bera vitni í Stím-málinu í nóvember á síðasta ári kom í ljós að hann var með réttarstöðu sakbornings. Heimildir mbl.is staðfesta að umrætt mál hafi verið markaðsmisnotkunarmál Glitnis, en þegar ákæra var gefin út í málinu var Þorsteinn ekki ákærður. Í framhaldinu hafði Þorsteinn ekki lengur réttarstöðu sakbornings.

Samkvæmt heimildum mbl.is var þáttur stjórnarformanna bankanna skoðaður í þeim málum sem rætt er um, en að aðkoma þeirra hafi verið með mismunandi hætti sem hafi ráðið því hvort þeir voru ákærðir eða ekki.

Sigurður segir í greininni að þótt bankastjórar og aðrir starfsmenn bæði Landsbankans og Glitnis hafi verið ákærðir með sambærilegum hætti og fyrrum starfsmenn Kaupþings, þá hafi stjórnarformenn þeirra banka aftur á móti ekki verið ákærðir og segir hann það vera ákveðna sérmeðferð á sér sem hafi vakið athygli lögmanna.

Í grein sinni rifjar Sigurður upp Baugsmálið og líkir stöðu annarra stjórnarformanna bankanna við það þegar Jón Ásgeir Jóhannesson og Tryggvi Jónsson voru ákærðir í því, en ekki Óskar Magnússon sem þá sat í stjórn Baugs ásamt Jóni og Tryggva.

Kallar hann þessar ákvarðanir saksóknara í málunum vera spillingu og gagnrýnir Sigurður dómstóla fyrir að „taka á fullu þátt í spillingunni.“ Segir hann í lok greinarinnar að hann geti nefnt fjölmörg svipuð dæmi og um Baugsmálið en láti það bíða betri tíma. „Greinilegt er af þessu að ekki gilda sömu lög fyrir alla,“ segir Sigurður að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert