Enn bætir í ár á Suðurlandi

Það er enn rigning víða á Suðurlandi og enn bætir …
Það er enn rigning víða á Suðurlandi og enn bætir í ár og læki. mbl.is/Rax

Hækkað hefur í öllum ám á Suðurlandi og eins Vesturlandi í nótt en dregið hefur úr úrkomunni fyrir vestan. Búast má við mikilli úrkomu við Mýrdalsjökul og annars staðar á Suðurlandi í dag þannig að það má búast við því að það bæti enn frekar í ár þar. Ekki er hætt að rigna og að sögn Þorsteins Jónssonar, vakthafandi veðurfræðings á Veðurstofu Íslands, mun vatnsveðrið halda áfram í dag.

Hann segir að veðrið hafi mikið gengið niður frá því í gærkvöldi og nótt bæði fyrir sunnan og vestan. „En það á eftir að rigna mikið fyrir sunnan í dag og þar verða býsna feitar úrkomutölur. Sérstaklega Eyjafjöll, Mýrdalur og undir Vatnajökli,“ segir Þorsteinn. 

Það er ákveðin sunnanátt og áfram vatnsveður á sunnanverðu landinu til kvölds, en dregur síðan úr vindi og úrkomu. Úrkomuminna fyrir norðan og fremur hlýtt í dag. Hæg suðlæg átt á morgun og lítils háttar væta, en léttskýjað fyrir norðan og kólnar dálítið, segir á vef Veðurstofu Íslands.

Hann segir að það sé stormviðvörun á hálendinu í dag en víða hvasst fyrir austan. Þrátt fyrir að veðrið hafi skánað fyrir vestan má búast við því að það versni aftur síðdegis. Hins vegar verður úrkoman mun minni en í gær.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi var afar slæmt veður þar í gærkvöldi og í nótt, gríðarlega mikil úrkoma og hvasst. Þar hefur hins vegar lægt, að minnsta kosti tímabundið. Þórsmerkurvegur er enn lokaður en veginum  á milli Grundarfjarðar og Ólafsvíkur var lokað vegna veðurs í gærkvöldi en ekkert ferðaveður var á norðanverðu Snæfellsnesi. 

„Búist er við miklu vatnsveðri á sunnanverðu landinu í dag. Fólki er bent á að ganga frá niðurföllum og tryggja að vatn komist rétta leið að þeim. Viðbúið er að flóðahætta myndist bæði í litlum ám og lækjum sem og á stærri vatnasviðum, s.s. Hvítá í Árnessýslu, Hvítá og Norðurá í Borgarfirði. Jafnframt má búast við aukinni hættu á skriðuföllum á þessum slóðum,“ samkvæmt viðvörun á vef Veðurstofu Íslands.

Úrhellisregn gekk yfir landið í gær og fyrradag. Mest mældist úrkoman í Bláfjöllum, en þar var hún um 150 mm á einum sólarhring. Mestu flóðin urðu á Barðaströnd, Snæfellsnesi og við Mýrdalsjökul. Miklir vatnavextir urðu einnig í Múlakvísl, Hvítá, Krossá og Ölfusá.

Veðurspáin fyrir næsta sólarhring:

Suðaustan 13-20 m/s, hvassast A-til og talsverð eða mikil rigning S-lands í dag, væta með köflum V-lands, en úrkomuminna NA-lands. Dregur úr vindi og úrkomu síðdegis, en hvessir um tíma og rignir talsvert V-lands. Suðlæg átt, 5-10 og víða skúrir eða dálítil rigning á morgun, en léttskýjað á N-landi. Hiti 6 til 14 stig í dag, hlýjast N-landi, en kólnar heldur á morgun.

Á föstudag:
Suðaustlæg átt, 5-10 m/s og dálítil væta með köflum, en bjartviðri á N-landi. Lægir og styttir víða upp um kvöldið. Hiti 7 til 12 stig að deginum.

Á laugardag:
Fremur hæg austlæg eða breytileg átt og bjart með köflum. Hiti 4 til 9 stig.

Á sunnudag:
Austankaldi og rigning SA-til, en annars hægviðri og bjart. Kólnar heldur í veðri.

Á mánudag:
Suðvestlæg átt og skúrir eða dálítil rigning og fremur svalt í veðri.

Á þriðjudag:
Suðvestlæg átt og væta með köflum, en bjartviðri NA-til. Áfram svalt í veðri.

Á miðvikudag:
Útlit fyrir vaxandi sunnanátt með rigningu og hlýnandi veður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert