Búist er við miklu vatnsveðri á sunnanverðu landinu í dag. Fólki er bent á að ganga frá niðurföllum og tryggja að vatn komist rétta leið að þeim. Viðbúið er að flóðahætta myndist bæði í litlum ám og lækjum sem og á stærri vatnasviðum, s.s. Hvítá í Árnessýslu, Hvítá og Norðurá í Borgarfirði.
Jafnframt má búast við aukinni hættu á skriðuföllum á þessum slóðum, segir í viðvörun vakthafandi veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.
Veðurspá fyrir næsta sólarhring:
Suðaustan 13-20 m/s, hvassast austan til og talsverð eða mikil rigning sunnanlands í dag, væta með köflum vestanlands, en úrkomuminna norðaustanlands. Dregur úr vindi og úrkomu síðdegis, en hvessir um tíma og rignir talsvert vestanlands. Suðlæg átt, 5-10 og víða skúrir eða dálítil rigning á morgun, en léttskýjað á Norðurlandi. Hiti 6 til 14 stig í dag, hlýjast á Norðurlandi, en kólnar heldur á morgun.
Á föstudag:
Suðaustlæg átt, 5-10 m/s og dálítil væta með köflum, en bjartviðri á N-landi. Lægir og styttir víða upp um kvöldið. Hiti 7 til 12 stig að deginum.
Á laugardag:
Fremur hæg austlæg eða breytileg átt og bjart með köflum. Hiti 4 til 9 stig.
Á sunnudag:
Austankaldi og rigning SA-til, en annars hægviðri og bjart. Kólnar heldur í veðri.
Á mánudag:
Suðvestlæg átt og skúrir eða dálítil rigning og fremur svalt í veðri.
Á þriðjudag:
Suðvestlæg átt og væta með köflum, en bjartviðri NA-til. Áfram svalt í veðri.
Á miðvikudag:
Útlit fyrir vaxandi sunnanátt með rigningu og hlýnandi veður.