Kvarnast úr varnargarði við Múlakvísl

Stórfljótið hefur tekið grjót með sér úr garðinum.
Stórfljótið hefur tekið grjót með sér úr garðinum. mbl.is/Jónas Erlendsson

Grjótgarður sem verndar brúarendann yfir Múlakvísl hefur látið á sjá eftir flóð síðustu daga. Fréttaritari mbl.is á Suðurlandi tók meðfylgjandi mynd af grjótgarðinum nú síðdegis.

Ágúst Freyr Bjartmarsson, verkstjóri Vegagerðarinnar í Vík, segir það ljóst af myndinni að kvarnast hafi úr garðinum. Eftir ábendingu mbl.is hefur hann sent mann á vettvang til að athuga hvort hætta sé á að meira grjót fari úr garðinum með stórfljótinu.

„Ef hann metur það svo að þetta hafi aukist þá köllum við á verktaka til að láta grjót í garðinn, annars bíður þetta morguns eins og fleira,“ segir Ágúst og bætir við að skemmdir séu víða á vegakerfi Suðurlands.

„En, við höfum ekki tapað neinum vegi. Og það er óhætt að segja að þetta fór mun betur en búist var við.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert