Leyfi fyrir Suðurnesjalínu ógilt

Hæstiréttur ógilti í dag ákvörðun Orkustofnunar frá 5. desember 2013 um að veita Landsneti hf. leyfi til þess að reisa og reka Suðurnesjalínu 2. Dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 21. október 2015 var þar með snúið við. 

Vísað er til þess í dómi Hæstaréttar að þegar Orkustofnun tók umrædda ákvörðun hefði legið fyrir að forsenda þess að Landsnet hf. gæti nýtt sér leyfið til lagningar raforkulínunnar væri að samkomulag næðist við hlutaðeigandi landeigendur um not af landi þeirra í því skyni, en að öðrum kosti yrði að taka það eignarnámi. 

Með hliðsjón af dómafordæmum hefði hvílt ríki skylda á Orkustofnun að upplýsa málið til hlítar áður en ákvörðunin hefði verið tekin enda hefði mátt vera ljóst að vegna þeirrar faglegu þekkingar sem stofnunin réði yfir að litið yrði til ákvörðunar hennar ef til þess kæmi að leitað yrði heimildar til eignarnáms sem síðar hafi orðið raunin.

Þrátt fyrir ítrekuð andmæli landeigenda við ráðagerðum Landsnets hf. um að leggja umrædda raforkulínu í lofti, þar sem lögn hennar í jörðu yrði minna íþyngjandi fyrir þá, hafi Orkustofnun og Landsnet eekki látið fara fram sérstaka athugun á þeim möguleika að leggja jarðstreng heldur látið nægja að vísa til almennra sjónarmiða um kosti og galla slíks strengs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert