Mesta úrkoman síðastliðna tvo sólarhringa mældist á Nesjavöllum, þar sem hún var 306 mm að sögn Helgu Ívarsdóttur, veðurfræðings á vakt á Veðurstofu Íslands. Þá hefur úrkoma víða mælst yfir 100 mm síðasta sólarhringinn, einkum á Suðausturlandi og eins á Hellisheiði og í Henglinum.
„Það má búast við að það rigni áfram fram eftir degi eins og gert hefur, en síðan styttir upp í kvöld og nótt að mestu,“ segir Helga og kveður spá Veðurstofunnar að mestu hafa gengið eftir.
„Aðeins hefur dregið úr úrkomunni, en nú er mest ákefðin á sunnanverðu hálendinu í nágrenni Jökulheima.“ Hún segir þó mikið rigna enn þá á svæðinu í kringum Mýrdalsjökul og að þar muni rigna áfram út daginn. „Síðan er fínasta útlit fyrir helgina.“
Mjög mikið vatn er nú í ánum í kringum Mýrdalsjökul og er flóðaástand einna verst þar að sögn Kristínar Elísu Guðmundsdóttur, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofunni. „Það er mjög mikið vatn í Markarfljóti, Jökulsá á Sólheimasandi og Múlakvísl. Síðan er vatn einnig tekið að vaxa verulega í Gígjukvísl á Skeiðarársandi og í Djúpá sem kemur úr sunnanverðum Vatnajökli.“
Kristín Elísa segir Veðurstofuna einnig verða vara við aukið rennsli í Hvítá í Borgarfirði, sem og í Hvítá í Árnessýslu.
Fyrri varúðarráðleggingar um að fólk sé ekki á ferðinni á hálendinu að ástæðu lausu séu enn í fullu gildi, enda muni það taka nokkra daga fyrir vatnsflaum í ám að minnka.