Sigmundur birtir bréf um tölvuinnbrot

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fv. forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fv. forsætisráðherra.

Tölvupóstur sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fékk þegar hann var forsætisráðherra innihélt líklega þekkta tölvuveiru sem opnar bakdyr inn í tölvur. Í færslu á Facebook segir hann að samskipti ríkislögreglustjóra og rekstrarfélags stjórnarráðsins sýni þetta. Rannsókn málsins var hætt.

Sigmundur Davíð skrifar í færslunni að hann hafi í krafti upplýsingalaga fengið afhent gögn sem varða fullyrðingar hans á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins um að brotist hafi verið inn í tölvu hans þegar hann var forsætisráðherra.

Frétt Mbl.is: Svartur kafli, njósnir og brjálaðar aðgerðir

„Fram kemur að tölvupóstur sem sendur var á mig og látinn líta út fyrir að hann hefði komið frá öðrum en þeim sem sendi hann hefði líklega innihaldið þekkta tölvuveiru að nafni „Poison Ivy backdoor“,“ skrifar Sigmundur Davíð og vísar til tölvupóstsamskipta ríkislögreglustjóra og rekstrarfélags stjórnarráðsins.

Um þessa veiru segir hann að segi í bréfi rekstrarfélagsins að hún opni bakdyr inn á tölvu fyrir aðgengi árásaraðila. Þótt veiran hafi ekki fundist í tölvu Sigmundar Davíðs taki rekstrarfélagið fram að algengt sé með slíkar veirur að árásaraðilinn hreinsi til eftir sig að lokinni aðgerð. Atvikið hafi verið skráð sem öryggisatvik hjá rekstrarfélaginu.

Innbrot verði tafarlaust tilkynnt hér eftir

Sigmundur Davíð birtir jafnframt bréf frá ríkislögreglustjóra til rekstrarfélags stjórnarráðsins vegna málsins frá 16. september. Í því kemur hins vegar ekkert af því fram sem hann rekur í færslu sinni. Þar stendur aðeins að ríkislögreglustjóri hafi óskað upplýsinga frá rekstrarfélaginu eftir umfjöllun í fjölmiðlum um meint innbrot í tölvu þáverandi forsætisráðherra.

Eftir að upplýsingarnar bárust og mat hafði verið lagt á þær hafi ríkislögreglustjóri ákveðið að hætta rannsókn málsins. Í bréfinu beinir ríkislögreglustjóri þeim tilmælum til forsætisráðuneytisins að tölvan verði innkölluð og öllum gögnum á innra drifi hennar eytt með tryggum hætti. Eins eigi það að ganga úr skugga um að upplýsingar sem varða öryggi ríkisins hafi ekki komist í hendur óviðkomandi aðila og að ekki sé hætta á slíku.

„Að lokum fer ríkislögreglustjóri þess á leit við forsætisráðuneytið og rekstrarfélag stjórnarráðsins að hér eftir verði tafarlaust tilkynnt um slík innbrot og tilraunir til þeirra til greiningardeildar ríkislögreglustjóra,“ segir í bréfi ríkislögreglustjóra til rekstrarfélagsins.

Fundu ekki merki um innbrot

Töluverða athygli vakti þegar Sigmundur Davíð hélt því fram að brotist hafi verið inn í tölvu hans þegar hann var forsætisráðherra í ræðu á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins á Akureyri í september. Þar setti hann innbrotið í samhengi við að fulltrúar kröfuhafa föllnu bankanna hafi fylgst með honum og jafnvel veitt eftirför erlendis. 

Innbrotið meinta var ekki tilkynnt til lögreglu en rekstrarfélag stjórnarráðsins stafðfesti að Sigmundur Davíð hafi á sínum tíma óskað eftir því að tölva hans yrði skoðuð. Engin ummerki hafi hins vegar fundist um innbrot. Þá kannaðist ríkislögreglustjóri ekki við málið þegar fjölmiðlar beindu fyrirspurnum þangað eftir ræðu Sigmundar Davíðs.

Frétt Mbl.is: Kannast ekki við tölvuinnbrot

Ekki er hægt að ráða af færslu Sigmundar Davíðs þar sem hann vísar í gögnin sem hann segist hafa fengið eða af bréfi ríkislögreglustjóra sem hann birtir að staðfest sé að brotist hafi verið inn í tölvu hans eða að þar hafi kröfuhafar bankanna verið á ferðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka