„Við höfum beðið eftir þessum gögnum til að halda áfram með málið. Ég vil fá endurgreiðslu. Ég er ekki tilbúin að greiða fyrir það sem ég fékk ekki,“ segir Sigurbjörg Dís Konráðsdóttir. Í brúðkaupi hennar í Sandgerði í sumar fengu tugir matareitun.
Matur, sem borinn var fram í veislunni, var lagaður á veitingahúsi í Reykjavík og fluttur á staðinn í hitakössum með ófullnægjandi hætti að mati Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Þetta kemur fram í nýjasta tölublaði Farsóttarfrétta embættis landlæknis.
Frétt mbl.is: Lambakjötið mengað af eiturefnum.
Málið er komið inn á borð Neytendastofu, að sögn Sigurbjargar. Auk fyrrgreindrar skýrslu segir hún að skýrslur frá Matvælastofnun, Heilbrigðiseftirlitinu og greinargerð frá þjónum verða lagðar fram í málinu. Sigurbjörg tekur fram að hjónin ætli ekki að fara fram á skaðabætur heldur vilja þau fá endurgreiddan kostnað við veitingarnar í veislunni.
„Ég vil líka fá afsökunarbeiðni,“ segir Sigurbjörg. Hún segir samskiptin ekki hafa verið góð við eiganda veitingaþjónustunnar, Magnús Inga Magnússon sem flestir kannast við sem eiganda Texasborgara, eftir að í ljós kom hvernig málum var háttað.
Í Farsóttarfréttum landlæknisembættisins kemur fram að sýkingin sé líklega rakin til lambakjötsins. Ekki hafi verið hægt að greina sýni úr lambakjötinu þar sem búið hafði verið að farga kjötinu. „Ljóst var af einkennum þeirra brúðkaupsgesta sem veiktust og tímasetningu einkenna eftir neyslu matvælanna að hér var líklegast um að ræða matareitrun fremur en matarsýkingu. Líklegir orsakavaldar slíkra matareitrana eru Stapylococcus aureus, Bacillus cereus og/eða Clostridium perfringens,“ segir enn fremur í Farsóttarfréttum.
Magnús Ingi Magnússon, eigandi veitingaþjónustunnar, segir að niðurstaðan byggi á líkindum. Hann vill ekki kannast við að kjötinu hafi verið fargað heldur hafi það hreinlega klárast í veislunni. „Það er ekki staðfest að sýkingin hafi verið í lambakjötinu heldur er þetta byggt á líkindum og sett svona fram. Ég skil ekki hvaðan þessi eiturefni í lambakjötinu ættu að hafa komið. Mér finnst þetta furðulegt en maður deilir ekki við dómarann,“ segir Magnús Ingi.
Hann tekur fram að honum þyki leiðinlegt að svona hafi farið. „Ég er ekki að draga í efa að eitthvað hafi komið fyrir,“ segir hann.