Varnargarður Múlakvíslar laskaður

Varnargarður sem Vegagerðin reisti við Múlakvíslarbrú laskaðist í vatnsflauminum. Vatn …
Varnargarður sem Vegagerðin reisti við Múlakvíslarbrú laskaðist í vatnsflauminum. Vatn er nú tekið að lækka í ánni að nýju. mbl.is/Jónas Erlendsson

Vatnsyfirborð Múlakvíslar er tekið að lækka á ný, en varnargarðurinn sem starfsmenn Vegagerðarinnar reistu þar á miðvikudag er þó laskaður eftir vatnsflauminn undanfarna daga.

 „Það fór grjót úr varnargarðinum, þannig að maður sér í honum skarð og sár en garðurinn hefur engu að síður haldið,“ segir Ágúst Freyr Bjartsmarsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar í Vík í Mýrdal.

„Slíkar skemmdir hafa orðið víða. Við Raufarfell var skarð í garði og við Múlakvíslina, og loks fyrir neðan Klifanda, en það fór hvergi alveg í gegn. Öll varnargarðakerfið sem ég veit um hafa haldið, þó að þau séu löskuð.“

Starfsmaður  Vegagerðarinnar í Vík er nú í frekari könnunarleiðangri á leiðinni í átt að Höfn og segir Ágúst Freyr vinnuna nú snúast um að meta aðstæður og hefja lagfæringar. Hann segir Vegagerðina ekki hafa haft fregnir af neinum skriðum eða grjóthruni á svæðinu.

„Þórsmörk er síðan óséð, en ég hef séð myndir þaðan og þar urðu líka einhverjar skemmdir á varnargörðum,“ segir hann og kveður líkur á að skemmdirnar í Þórsmörk séu meiri en á þeim svæðum sem þeir eru búnir að skoða.

„Við sendum tæki inn í Þórsmörk til að gera fært og skoðað um leið og það hefur lækkað nógu mikið í ánni.“ Ágúst Freyr segir jarðýtu verða senda fyrsta á vettvang til að gera leiðina færa. „Síðan eltum við á eftir og lögum varnargarða og annað slíkt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert