Vatnsyfirborð Ölfusár enn að hækka

Ölfusá er aurug og vatnsmikil, en vatnsmagn í henni nam …
Ölfusá er aurug og vatnsmikil, en vatnsmagn í henni nam 750 rúmmetrum á sekúndu þegar ljósmyndari var þar á ferð. mbl.is/Sigmundur Sigurgeirsson

Ölfusá hefur meira en tvöfaldast að vatnsmagni í rigningunni undanfarna daga. Vatnshæð í ám á Suðurlandi er víða tekin að réna, en rennsli er þó enn að vaxa í Hvítá og Ölfusá samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. 

Mikið vatn er í öllum þverám Hvítár og mjög mikið í Soginu, en rennsli þar fór í 250 rúmmetra á sekúndu og hefur ekki verið jafnmikið síðan 1999.  Þá hefur rennsli ekki náð hámarki í Hvítá við Fremstaver, þannig að talið er að Ölfusá við Selfoss nái ekki hámarki fyrr en í fyrramálið.

Rennsli í ánni nú í morgun nam 750 rúmmetrum á sekúndu, en venjulega er rennsli við brúna um 300 m/s. Talið er að rennsli árinnar geti því náð yfir eitt þúsund rúmmetrum áður en vatnsflaumurinn tekur að minnka á ný og mældist síðast svo mikið í Ölfusá í febrúar 2013.

Veðurvefur mbl.is

Lítil hætta virðist þó vera á flóðum í Ölfusá, sem að sögn heimamanna er talsvert vatnsminni nú en í hefðbundnum vorleysingum. Áin er engu að síður nokkuð aurug, sem er von eftir rigningar undanfarinna daga. 

Fjölmargir hafa gert sér ferð niður að árbakkanum til að virða vatnsflauminn fyrir sér. Tíðindamaður mbl.is hitti þar fyrir hjónin Leif Eyjólfsson og Ásdísi Guðnadóttur, gamla Selfyssinga sem eru nýflutt aftur í bæinn eftir fjórtán ára fjarveru. Þau voru sammála um að áin hafi oft verið ófrýnilegri, þegar þau nutu bæði útsýnisins og veðurblíðunnar á Selfossi í morgun. 

Hjónin Leifur Eyjólfsson og Ásdís Guðnadóttir sögðu ána oft hafa …
Hjónin Leifur Eyjólfsson og Ásdís Guðnadóttir sögðu ána oft hafa verið ófrýnilegri. mbl.is/Sigmundur Sigurgeirsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert