Dr. Bjarni Jónsson, prófessor emeritus við Vanderbilt-háskólann í Nashville í Tennessee í Bandaríkjunum, andaðist 30. september, 96 ára að aldri.
Foreldrar Bjarna voru Jón Pétursson og Steinunn Bjarnadóttir. Hann fæddist á Draghálsi í Svínadal 15. febrúar 1920, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1939, BA-prófi í stærðfræði við háskólann í Berkeley í Kaliforníu í Bandaríkjunum 1943 og doktorsprófi þar 1946.
Bjarni var merkur vísindamaður, frumkvöðull í stærðfræði og virtur í heimi algebrunnar, en mörg hugtök í greininni eru tengd við hann. Hann starfaði m.a. við Brown-háskólann, háskólann í Berkley og varð prófessor við Minnesota-háskólann í Minneapolis 1959, en gegndi prófessorsembætti við verkfræðideild HÍ 1954-55.
Eftir að Bjarni hóf störf við Vanderbilt-háskólann 1966 var hann lykilmaður í því að koma á framhaldsdeild við skólann og er hún nú talin ein sú besta í Bandaríkjunum. Hann kom þar á fót rannsóknarhópi í algebru sem hefur laðað til sín stærðfræðinga víðs vegar að úr heiminum. Hann ritaði margar vísindagreinar um algebru í virt fagrit auk þess sem hann var í ritstjórnum margra stærfræðitímarita, þar á meðal Algebra Universalis. Þá hélt hann fjölmörg erindi um stærðfræði vítt og breitt um heiminn. Hann var prófessor við Vanderbilt-háskólann þar til hann lét af störfum vegna aldurs 1993.
Bjarni var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við Háskóla Íslands árið 1986, sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 1991 og í tilefni af sjötugsafmæli hans árið 1990 héldu Háskóli Íslands og Íslenzka stærðfræðafélagið málþing á Laugarvatni ásamt þremur erlendum háskólum honum til heiðurs. Hann hlaut ýmsar viðurkenningar í heimi stærðfræðinnar og var tekinn inn í það sem kalla má frægðarsetur stærðfræðinga í Bandaríkjunum árið 2012.
Bjarni var tvíkvæntur og átti með eiginkonunum, sem báðar eru látnar, þrjú börn, sem lifa föður sinn. Hann og Amy Sprague eignuðust tvö börn, Meryl Rose og Eric. Seinni kona hans var Harriet Parkes og dóttir þeirra er Kristín Jonsson Portovsky.