Settur ríkissaksóknari í máli lögreglumanns

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Hæstaréttarlögmaðurinn Björn L. Bergsson hefur verið settur ríkissaksókari vegna kæru fyrrverandi fíkniefnalögreglumanns á hendur fyrrverandi samstarfsmanni fyrir rangar sakargiftir. Lögreglumanninum var vikið tímabundið frá störfum vegna sögusagna um meint brot í starfi sem ekki reyndust eiga við rök að styðjast. Hyggst hann sækja miskabætur til ríkisins.

Lögreglumanninum var gefið að sök að hafa átt í óeðlilegum samskiptum við brotamenn og aðra sem tengdust rannsóknum hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hann var síðan hreinsaður af öllum ásökunum í kjölfar rannsóknar ríkissaksóknara og sneri í kjölfarið aftur til starfa. Ríkissaksóknari kaus að víkja til hliðar í málinu vegna fyrri aðkomu að því.

Vegna vanhæfis Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, sem vék lögreglumanninum tímabundið til hliðar á sínum tíma vegna sögusagnanna, og annarra starfsmanna embættisins hafi innanríkisráðherra falið Úlfari Lúðvíkssyni, lögreglustjóra á Vesturlandi, að sjá um rannsókn málsins. Ríkisútvarpið greinir frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert