Héraðsdómur staðfestir lögbann vegna deildu og piratebay

Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti í dag lögbann á fjarskiptafélögin Símafélagið og Hringiðuna frá október 2015 við því að veita netaðgengi að vefsvæðunum deildu og piratebay ásamt lénum sem vísa á sömu svæði. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá STEF, Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar. Þar segir að lokun aðgengis á sams konar síður, sem eru sagðar hafa það að meginstefnu og í stórfelldum mæli að miðla efni án heimilda rétthafa, hafi gefið góða raun bæði hérlendis og víða í Evrópu.

„Aðgerðir sem þessar byggjast á skýrum heimildum í íslenskum lögum og tilskipun Evrópusambandsins. Með þeim er ekki með ólögmætum hætti skertur réttur einstaklinga til tjáningarfrelsis, enda er með aðgerðunum verið að koma í veg fyrir lögbrot og vernda eignarrétt og fjárhagsafkomu höfunda, flytjenda og framleiðenda.

Yfir 90% af því efni sem Íslendingar hala niður af ólöglegum vefsvæðum er hægt að nálgast með löglegum hætti við vefþjónustur sem eru með samninga við íslenska rétthafa.

Fjárhagslegt tjón rétthafa er nú þegar gífurlegt af völdum ólögmætrar starfsemi af þessu tagi og sýnir nýleg könnun sem Capacent gerði að tap innlendra aðila vegna sjónvarps- og kvikmyndaefnis eingöngu er 1,1 milljarður á ári.  Af því tapar hið opinbera milli 350 og 450 milljónum króna árlega. Við óbreytt ástand og lagaumhverfi eiga rétthafar ekki annarra kosta völ en að verja lögmæta hagsmuni sína með lögbannsaðgerðum.

STEF – Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar, hefur verið í forsvari fyrir framangreindar aðgerðir með stuðningi rétthafasamtakanna SÍK – Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda, SFH – Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda og FRISK – félag rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert