Bara hættulegt að synda í Reynisfjöru

Ferðamenn hlupu niður að sjávarborðinu og hlupu svo öskrandi og …
Ferðamenn hlupu niður að sjávarborðinu og hlupu svo öskrandi og hlæjandi til baka þegar aldan kom inn. Algengt var að fólk sneri baki í sjóinn til að ná mynd af sér með fjöruna í bakgrunni. Ljósmynd/Þórdís Pétursdóttir

Þeir ferðamenn sem koma í Reynisfjöru sjá skiltið sem varar við fjörunni, en telja sér litla hættu búna nema þeir leggist til sunds. Þetta voru algeng viðbrögð hjá ferðamönnum sem þær Þórdís Pétursdóttir og Sigurlaug Rúnarsdóttir ræddu við sem hluta af BSc.-verkefni sínu í ferðamálafræði við Háskóla Íslands.

Þær Þórdís og Sigurlaug eyddu fjórum dögum í Reynisfjöru í síðustu viku þar sem þær fylgdust með ferðum ferðamanna um fjöruna og festu brot viðbragðanna á myndband, sem Þórdís deild á Facebook-síðunni Bakland ferðaþjónustunnar. „Það kom okkur á óvart hvað fólk var lítið meðvitað um hættuna sjálfa,“ segir Þórdís. Þær eru enn að vinna úr niðurstöðum rannsóknarinnar, sem skoðar skynjun ferðamanna á það hve hættuleg Reynisfjara er.

„Mjög algeng viðbrögð við hættumatinu voru að ströndin væru öruggur staður, svo framarlega sem þeir [ferðamennirnir] fari ekki að synda. Það er eins og fólk átti sig ekki á því að aldan geti náð því þó að það fari ekki út í sjó.“

Sáu skiltin en töldu hættuna litla

Þórdís segir einnig hafa komið á óvart að flestir sögðust hafa séð skiltin, en gerðu engu að síður allt það sem skiltin segja þá eiga ekki að gera.

„Þeir voru mjög fáir sem sögðust ekki hafa séð skiltin, en engu að síður taldi fólk hættuna vera litla. Fólk var enn þá að fara með börnin sín niður í fjöru eins og sést í myndbandsupptökunni. Fjölskyldan sem við festum þar á mynd var að láta sjóinn snerta sig í þriðja skipti,“ segir Þórdís.

Mikill munur var á hegðun fólks niðri í fjöru eftir veðri og því hvort leiðsögumaður var á staðnum. „Dagana 12. og 13. október var veðrið vont og þá fóru leiðsögumenn meira niður á strönd með hópunum,“ segir Þórdís og segir að fólk hafi fylgt leiðbeiningum áberandi betur ef leiðsögumaður var á staðnum.

Komu hlæjandi upp úr vatninu

Um leið og veðrið var hins vegar orðið gott og sólin farin að skína var viðvera leiðsögumanna minna áberandi niðri í fjöru og þá var fólk að leika sér í briminu, þó að öldukrafturinn væri engu minni. „Þá voru margir að hlaupa fram og snerta sjóinn og hlupu síðan til baka öskrandi og hlæjandi. Flestir voru líka enn þá hlæjandi þegar þeir komu upp úr vatninu, sem sýndi vel að þeir áttuðu sig ekki á því hvað hefði getað gerst.“

Þórdís nefnir myndskeiðið af barninu sem dæmi um þetta, þar hafi til að mynda verið mikill hlátur hjá móðurinni.

Í rannsóknarskyni urðu þær Sigurlaug að halda sig í hlutverki áhorfenda og segir Þórdís óneitanlega hafa verið erfitt að tjá sig ekki þegar fólk stefndi sér og sínum í hættu. „Það var sérstaklega erfitt fara ekki og vara konuna með barnið við,“ segir hún.

Fannst dánartíðnin lág

Auk þess að fylgjast með ferðamönnum lögðu þær spurningalista fyrir fólk þegar það kom upp úr fjörunni og spurðu hversu hættulegt það teldi fjöruna vera á skalanum 1 og upp í 5. Þær spurðu sömuleiðis hvort fólk hefði séð skiltin og hvort það vissi að tveir hefðu dáið í briminu.

Kátína ferðamannanna virðist síst minnka við að lenda í briminu …
Kátína ferðamannanna virðist síst minnka við að lenda í briminu og kom fólk hlæjandi úr viðureign sinni við ölduna. Ljósmynd/Þórdís Pétursdóttir

„Allir þeir sem voru í skipulögðum ferðum sögðu að leiðsögumanninn hefði varað þá við, þannig að það skilar sér,“ sagði Þórdís. „En það er líka mjög stór hópur ferðamanna sem kemur í Reynisfjöru á eigin vegum. Hún bætir við að þó að þeir sem hafi verið í skipulögðum ferðum hafi verið meðvitaðri um hættuna þá, hafi það ekki stöðvað þá í að fara niður að sjónum.

„Það var algengt að við fengjum þau svör að það væri alltaf einhver einn bjáni sem gengi of langt.“

Fæstir hafi hins vegar vitað að fjaran hafi orðið fólki aldurtila. „Þegar við spurðum hvort þeir vissu að fólk hefði dáið í fjörunni þá sögðu flestir nei og sumum Bandaríkjamönnum fannst dánartíðnin vera lág.“ 

Stefndu sér og sínum í hættu fyrir réttu myndina

Þórdís segir þeim sömuleiðis hafa komið á óvart hversu stórt hlutverk myndavélin lék. Ferðamenn hafi klifrað hátt í stuðlaberginu, farið lengst inn í helli þar sem hætta er á grjóthruni og alveg niður að fjöruborðinu og snert sjóinn – allt fyrir réttu myndina.  

„Þeir settu sjálfa sig, ástvini og stundum börn í hættu til að ná hinni fullkomnu mynd. Það stendur til að mynda mjög skýrt á skiltinu að fólk eigi ekki að snúa baki í sjóinn, en það gerðu engu að síður langflestir. Það stóð meira að segja ein fjölskylda með barnavagn um metra frá fjöruborðinu og sneri baki í öldurnar til að ná fjölskyldumynd,“ segir Þórdís og bendir á að það viti enginn hvenær stóra aldan komi.

Sömuleiðis hafi verið áhugavert að verða vitni að því að er bandarískur myndatökumaður, sem var taka upp Crossfit-kynningarmyndband, klifraði blauta og hættulega leið upp á hæsta hluta stuðlabergsins fyrir hina fullkomnu mynd. „Þetta er til dæmis myndefni sem verður dreift víða og getur orðið fyrirmynd að myndum fyrir aðra sem vilja ná sama sjónarhorni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert