Lögmaður Sónar Reykjavík ehf., Þorsteinn Einarsson hrl., hefur staðfest að Sónar Reykjavík ehf. hafi endurgreitt kaupendum miða á landsleik Íslands og Frakklands á EM í Frakklandi í sumar að andvirði tæplega níu milljónir króna. Um er að ræða 168 miða.
Hér má sjá tölvupóst frá lögmanninum til Björns Steinbekk, seljanda miðanna:
17. október 2016.
Ég vísa til samtals okkar varðandi endurgreiðslu kaupverðs miða á landsleik Íslands og Frakklands er fram fór þann 3. júlí sl. Það staðfestist hér með að ég hef fyrir hönd Sónar Reykjavík ehf. endurgreitt kaupendum miða á landsleikinn alls kr. 8.787.052.- en um er að ræða 168 miða.
Ásakanir sem fram hafa komið í fjölmiðlum um að Sónar Reykjavík ehf. hafi ekki endurgreitt kaupendum miða eru því rangar.
Þorsteinn Einarsson, hrl.
Sónar Reykjavík ehf. endurgreiddi einnig, án milligöngu lögmanns félagsins, 18 miða að upphæð 1.063.836 krónur, að sögn Björns.
Frétt mbl.is: Bíður enn eftir milljónum frá Birni
Frétt mbl.is: Fjöldi fólks ekki fengið greitt
Björn greinir frá því að meira en 85% þeirra sem kröfðu Sónar Reykjavík ehf., eða þá aðila sem ákváðu að selja miða í einhverju magni til að hagnast á og/eða selja flugsæti með hagnaði, hafa fengið endurgreitt.
Hann sagðist á dögunum hafa endurgreitt um 10 milljónir króna til þeirra sem fóru fram á að fá endurgreidda miða sem hann seldi þeim fyrir leik Íslands og Frakklands.
Frétt mbl.is: Segist hafa endurgreitt 10 milljónir
Í viðtali við mbl.is í júlí kvaðst Björn hafa verið svikinn af miðasöluaðilunum sem hann keypti miða af á leikinn. Þegar til Parísar var komið hafi hann því keypt 458 miða af öðrum aðilum en fengið hluta af þeim seint. Honum tókst þó að afhenda 389 miða fyrir utan leikvanginn. Hann nefndi einnig að bakpoka með rúmlega 60 miðum hefði verið rænt. Á endanum hefðu 69 manns ekki fengið miða. Hann þvertók fyrir að um svindl hafi verið að ræða af sinni hálfu.
Frétt mbl.is: Hefði ekki fórnað öllu með svindli
Björn hefur sent mbl.is skjöl sem sýna fjórar millifærslur af reikningi Sónar Reykjavík ehf. Hann segir að þær sýni svo ekki verður um villst að Sónar Reykjavík ehf. hafi innt af hendi greiðslur til erlendra aðila vegna miðanna, sem langflestir voru afhentir í Frakklandi. Með þessu vill hann sýna að engin brögð hafi verið í tafli en mikið hefur verið fjallað um málið í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum.
„Í meðfylgjandi pdf-skjölum sjást fjórar millifærslur af reikningi Sónar Reykjavik ehf. Sökum trúnaðar við seljanda miðana er búið að afmá upplýsingar um hann. Vert er að taka fram að ekki hefur tekist að loka uppgjöri við þennan aðila. Sá lögmaður sem sótt hefur mál Sónar Reykjavik ehf. erlendis gagnvart þeim sem sviku félagið um miðana í upphafi getur staðfest tilvist þessara greiðslna,“ segir Björn í samtali við mbl.is.